Innleiðing nýrra tæknilausna skipti sköpum í heimsfaraldri

Covid-19 Stjórnsýsla

""

Eitt stærsta og umfangsmesta upplýsingaumhverfi landsins er rekið af Reykjavíkurborg. Þjónustu- og nýsköpunarsvið borgarinnar (ÞON) annast innri og ytri þjónustu hennar, stuðlar að nýsköpun í starfseminni og ber ábyrgð á m.a. upplýsingatækni, gagnastjórnun og tæknilegum umbótum.

Ársskýrsla Þjónustu- og nýsköpunarsviðs fyrir árið 2020 er komin út. Þar er farið yfir helstu verkefni og umbætur á þessu fyrsta heila starfsári sviðsins, lykiltölur og rekstraruppgjör. Rekstrarkostnaður sviðsins í heild sinni var 2.261 m.kr. og var reksturinn samkvæmt áætlun.

COVID-19 hafði mikil áhrif á starfsemi sviðsins eins og samfélagið allt en með útsjónarsemi og innleiðingu nýrra tæknilausna náði starfsfólk sviðsins að halda órofinni þjónustu við íbúa og fyrirtæki borgarinnar.

Sjálfvirknivæðing hluti af Græna planinu
Heimsfaraldurinn sýndi skýrt fram á verðmætin sem felast í góðum tækniinnviðum og sjálfvirkum ferlum og í lok árs var ÞON falið að leiða stafræna þjónustuumbreytingu og sjálfvirknivæðingu til næstu þriggja ára. Vegferðin er hluti af Græna plani borgarinnar sem er viðspyrnuáætlun ætluð til að takast á nýstárlegan hátt á við þær samfélagslegu áskoranir og efnahagslegu áhrif sem heimsfaraldurinn olli.

Eitt af stærstu verkefnum gagnaþjónustunnar á árinu var þróun og smíði vöruhúss gagna fyrir Reykjavíkurborg, en það er miðlægur stafrænn geymslustaður fyrir gögn borgarinnar úr ýmsum upplýsingakerfum.

Þjónustuhönnun var í forgrunni fjölda verkefna og má þar nefna umbreytingu á stuðningsþjónustu Velferðarsviðs, þar sem unnið var að bættu aðgengi að stuðningsþjónustu fyrir fullorðið fatlað fólk. Þá var innritunarferli í skóla- og frístundastarf endurskoðað.