Innilegar móttökur þegar vinasamband var innsiglað í Lviv

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Andriy Sadovyy borgarstjóri Lviv fallast í faðma eftir undirskrift samstarfssamnings milli borganna.
Borgarstjórar Reykjavíkur og Lviv faðmast

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur og Andriy Sadovyy borgarstjóri Lviv undirrituðu samkomulag um samvinnu borganna að viðstöddu fjölmenni í Ráðhúsinu í Lviv þriðjudaginn 23. maí 2023. Á sama tíma var undirritað rammasamkomulag milli heilbrigðistæknifyrirtækisins Össurar og endurhæfingasjúkrahússins Unbroken sem rekið er af Lviv borg.

„Við vonumst til að auka samstarf borganna á næstu árum og áratugum. Innrás Rússa og yfirstandandi stríð yfirskyggir þó vitanlega allt í Úkraínu um þessar mundir. Því skipti mig mestu máli að koma á tengingu milli Lviv og stoðtækjafyrirtækisins Össurar. Það var meginmarkmiðið með þessari ferð,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri um nýtt systraborgarsamkomulag sem hann undirritaði fyrir hönd Reykjavíkurborgar í Lviv í Úkraínu í gær.

Þetta systraborgasamkomulag hefur verið í undirbúningi um nokkurt skeið en í september 2022 samþykkti borgarstjórn einróma að slíta vinaborgarsamkomulagi við Moskvu.

Efla samstarfið til frambúðar

Samkomulagið felur í sér að efla vinsamleg samskipti til frambúðar og hvetja til gagnkvæmrar samvinnu á þeim sviðum sem skipta máli fyrir borgara Lviv og Reykjavíkur. Tekið verður sérstaklega tillit til mikilvægra gilda eins og lýðræðis, frelsis, réttarríkis og mannréttinda og samvinna efld á mismunandi sviðum þjóðlífs.

Sadovyy sagði við undirritunina frá heimsókn sinni til Reykjavíkur árið 2019 þegar hann fundaði með Degi B. Eggertssyni fyrst en þeir hafa átt í reglulegum samskiptum síðan þá. Á fundi þeirra í Vilníus fyrr á þessu ári sagði Sadovyy frá risavöxnu verkefni Lviv að byggja upp sjúkrahús og alhliða þjónustu fyrir fólk sem missir útlimi og verður fyrir alvarlegum áföllum vegna stríðsins í landinu. Þetta verkefni kallast „Unbroken.“ „Þetta verkefni hefur verið mér ofarlega í huga frá því heyrði af því og ég ákvað að leita allra leiða til að verða þeim að liði með einhverjum hætti,“ segir borgarstjóri.

Þörfin er náttúrulega alveg ótrúlega mikil.

Sveinn Sölvason, forstjóri Össurar

Unbroken

Í ráðhúsi Lviv í gær var einnig undirritað rammasamkomulag við endurhæfingamiðstöðina Unbroken við heilbrigðistæknifyrirtækið Össur.

Um 20 þúsund Úkraínubúar hafa misst útlimi í stríðinu og mörg þeirra eru börn. Öll þurfa mikla þjónustu sérfræðinga næstu ár og áratugi. Borgaryfirvöld, með aðstoð alþjóðlegra stofnana, fyrirtækja og einstaklinga, hafa lyft grettistaki í að byggja upp endurhæfingasjúkrahúsið Unbroken sem er það stærsta sinnar tegundar í Úkraínu.

Borgarstjóri, Þórdís Lóa Þórhallsdóttir forseti borgarstjórnar og Sveinn Sölvason forstjóri Össurar heimsóttu Unbroken, kynntu sér starfsemina og ræddu við sjúklinga.

„Össur hefur verið í alls konar samstarfi í Úkraínu frá því að Rússar réðust inn í Úkraínu fyrir rúmu ári, bæði við samtök á vegum hins opinbera sem og einkasamtök sem hafa verið að vinna í lausnum við að byggja upp stoðtækjaiðnað og þekkingu hérna í Úkraínu“ segir Sveinn. Rammasamkomulagið við Unbroken snýst um að útvega vörur en ekki síður þjálfun á stoðtækjafræðingum. „Þörfin er náttúrulega alveg ótrúlega mikil.“

„Það er magnað að sjá hversu hratt þið hafið byggt upp endurhæfingastöðina og að finna sterkan baráttuanda sjúklinga og heilbrigðisstarfsfólks. Við vorum öll snortin af heimsókn okkar í Unbroken,“ sagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir forseti borgarstjórnar við undirritunina.

 

Það er óraunverulegt að heimsækja nýteknar grafir ungra manna sem látið hafa lífið í þessu ömurlega stríði sem Rússar bera alfarið ábyrgð á.

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri

Úthald Úkraínu og baráttuþrek vekur aðdáun

Lviv er borg í vesturhluta Úkraínu. Fyrir innrás Rússa bjuggu þar um 700 þúsund íbúar en á fyrstu dögum og mánuðum stríðsins leituðu allt að tvær milljónir sér skjóls þar. Borgaryfirvöld þurftu að bregðast skjótt við og koma upp tímabundnu húsnæði en í haust hefjast framkvæmdir við byggingu nýrra íbúðahúsa til að mæta þörfum þeirra sem ekki geta snúið aftur til síns heima sem í dag teljast um 250 þúsund manns.

Auk þess að heimsækja endurhæfingasjúkrahúsið Unbroken, tóku borgarstjóri og forseti borgarstjórnar þátt í athöfn og lögðu blóm á gröf ungs hermanns frá Lviv sem lést í átökum 15. maí. Þá funduðu þau með helstu stjórnendum Lviv, skoðuðu borgina með Anton Kolomieitsev yfirarkitekt borgarinnar og hittu listakonuna Katerynu Kosyanenko á sýningu hennar sem ber yfirskriftina Victory í Listasafni Lviv.

„Úthald Úkraínu og baráttuþrek vekur aðdáun. Það er óraunverulegt að heimsækja nýteknar grafir ungra manna sem látið hafa lífið í þessu ömurlega stríði sem Rússar bera alfarið ábyrgð á. Það er um leið ekki annað hægt en að dáðst að því að borgarbúar reyna um leið að láta lífið hafa sinn vanagang, verslun og viðskipti og skólahald þó alls staðar þurfi að hugsa fyrir því að flugskeytaárás geti verið á næsta leiti.“