Ingólfstorg aftur EM torg að ári

Íþróttir og útivist Mannlíf

""
EM torginu á Ingólfstorgi verður nú pakkað saman eftir síðasta leik Evrópumeistaramótsins í knattspyrnu, úrslitaleik Portúgals og Frakklands, í gær.  Nái íslenska kvennalandsliðið í knattspyrnu að tryggja sér sæti á EM2017 í Hollandi eru líkur á að EM torgið verði aftur á Ingólfstorgi að ári.
 
Manhattan Marketing hefur haft veg og vanda að skipulagningu EM torgsins í samstarfi við Reykjavíkurborg og bakhjarla torgsins. Vinsældir EM torgsins voru miklar og þegar Ísland komst í 16 liða úrslitin var ákveðið að flytja skjáinn út á Arnarhól þegar Ísland spilaði gegn Englandi og Frakklandi. Þangað komu mörg þúsund manns saman til að fylgjast með leikjunum, hvetja landsliðið áfram og fagna góðu gengi. Mikill mannfjöldi kom einnig saman í miðborginni þegar íslenska liðið var síðan hyllt á hólnum eftir glæstan árangur á Evrópumeistaramótinu.

Bakhjarlar EM torgsins á Ingólfstorgi hafa lýst yfir vilja sínum til að endurtaka leikinn að ári  ef íslenska kvennalandsliðið kemst á EM 2017.  Sætið í úrlsitakeppni EM, sem fram fer í Hollandi á næsta ári, er innan seilingar hjá Íslenska kvennalandsliðinu. Framundan eru tveir leikir svo að stelpurnar okkar geti tryggt sætið í úrslitakeppninni, leikirnir eru gegn Slóveníu, 16. september og gegn Skotum, 20. september. Nú er bara að hvetja kvennalandsliðið áfram og fylgjast með síðustu leikjum stelpnanna okkar. Með sigri liðsins geta borgarbúar hlakkað til næsta sumars og notið þess að sitja í blíðviðri á EM torginu að ári og fylgst með kvennalandsliðinu í knattspyrnu spila  spennandi fótboltaleiki á EM í Hollandi.

Áfram Ísland!