No translated content text
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir fær aðgengisviðurkenningu Reykjavíkur 2022
Handhafi aðgengisviðurkenningarinnar 2022 er Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir. Hún hlýtur viðurkenninguna fyrir baráttu sína fyrir bættu aðgengi í stafrænum heimi. Inga Björk hefur vakið athygli á mikilvægi þess að stafræn vegferð samfélagsins þjóni öllum og skilji engan útundan. Í starfi sínu hjá Þroskahjálp hefur Inga Björk beitt sér fyrir þessu málefni en hún er einnig á leið í doktorsnám þar sem hún hyggst rannsaka áhrif stafrænnar framþróunar á jaðarhópa.
Inga Björk þakkaði fyrir viðurkenninguna og benti á hversu mikilvægt sé að gerður verði rammi um stafræn aðgengis- og réttindamál er varða mannréttindi í breiðum skilningi, sér í lagi þegar kemur að jaðarsettum hópum í samfélaginu og þá sérstaklega fötluðu fólki.
Borgarstjóri, Dagur B. Eggertsson, sagði að Inga Björk væri vel að viðurkenningunni komin. Það sé nauðsynlegt að huga að aðgengi fyrir alla í hinum stafræna heimi.
Aðgengisviðurkenning Reykjavíkur
Aðgengisviðurkenning Reykjavíkurborgar er veitt þeim einstaklingum, hópum, félagasamtökum, fyrirtækjum eða stofnunum sem á eftirtektarverðan hátt hafa staðið vörð um gott aðgengi með fjölbreyttum hætti. Reykjavíkurborg hefur markað stefnu í aðgengismálum um að vera í fararbroddi hvað varðar viðhorfsbreytingu gagnvart fötluðu fólki og aðgengisþörfum þess. Húsnæði og opin svæði borgarinnar eiga að vera aðgengileg borgarbúum óháð aðgengisþörfum þeirra.
Viðurkenningunni er ætlað að gera aðgengismálum hærra undir höfði og varpa ljósi á það sem vel er gert í málaflokknum. Gott aðgengi í víðum skilningi þess hugtaks er mikilvægt mannréttindamál og undirstaða þess að fólk með fjölbreyttar aðgengisþarfir geti tekið þátt í samfélaginu á jafnréttisgrundvelli. Aðgengisviðurkenningin er hvatning til fyrirtækja, félagasamtaka og einkaaðila til að gera enn betur í aðgengismálum.
Viðurkenningin veitt í fjórða sinn
Aðgengisviðurkenningin er nú veitt í fjórða sinn. Blindrafélagið var fyrst til að fá viðurkenninguna fyrir fjölbreytt starf í þágu blindra og sjónskertra sem hefur bætt aðgengi hópsins að samfélaginu. Áslaug Katrín Aðalsteinsdóttir og Berglind Hallgrímsdóttir hlutu viðurkenninguna þegar hún var veitt í annað sinn fyrir verkefni sem sneri m.a. að gerð handbókar um algilda hönnun í útiumhverfi. Samtök hernaðarandstæðinga og Friðarhús SHA ehf. hlutu viðurkenninguna þegar hún var veitt í þriðja sinn fyrir mikilvægt frumkvæði í aðgengismálum með uppsetningu á hjólastólalyftu í Friðarhúsinu. Haraldur Ingi Þorleifsson frumkvöðull hlaut viðurkenninguna í fyrra fyrir verkefnið Römpum upp Reykjavík.