Ilmandi plöntusafn í gróðurhúsi á Lækjartorgi

Umhverfi

""

Lækjartorg hefur fengið græna viðbót en búið er að koma þar fyrir gróðurhúsi sem hýsir skemmtilegt plöntusafn. Í gróðurhúsinu er hægt að fræðast um plönturnar sem ræktaðar eru í borginni íbúum og gestum til yndisauka. Þarna er hægt að njóta stundarinnar og framlengja sumarið. Herbaríum plöntusafnið er opið á milli 8-16 alla daga vikunnar.

Í gróðurhúsinu mæta manni ólíkar tegundir plantna sem flokkaðar eru í nokkra hópa. Á einum stað eru kryddjurtir og plöntur sem gefa frá sér sterkan ilm. Það mætir fólki því höfugur ilmveggur þegar það gengur inn í húsið.

„Ein hugmyndin er að sýna fólki margar ólíkar tegundir planta og blóma og hvað fólk getur ræktað í gróðurhúsi,“ segir Zuzana Vondra Krupkova, garðyrkjufræðingur hjá Reykjavíkurborg.

Hún er hrifin af því hvernig Íslendingar nota gróðurhús sín til íveru og ýmissar ræktunar og segir að í Tékklandi, heimalandi hennar, noti fólk gróðurhús yfirleitt aðeins fyrir grænmetisræktun.

Zuzana hvetur fólk til að vera óhrætt að blanda saman tegundum, eins og til dæmis að setja kryddjurtir og blóm saman.

Plönturnar í gróðurhúsinu eru fallegar og fjölbreyttar. Sumar bera ávöxt eins og jarðarber og vatnsmelónugúrku (cucamelon). Flestar plönturnar koma frá Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar.

Núna eru sumarblóm og aðrar plöntur sem eru upp á sitt besta á þessum árstíma áberandi í gróðurhúsinu. „Gróðurhúsið mun síðan þróast með tímanum og breyta um svip í takt við árstíðirnar,“ segir Zuzana.

Lærum að þekkja plönturnar í borgarlandinu

Gróðurhúsið á vel við á þessum tímum COVID-19 en margir hafa lagt áherslu á að rækta garðinn sinn að undanförnu. Fólk getur heimsótt gróðurhúsið og fengið hugmyndir. Plöntusafnið hefur líka ákveðið menntunargildi og býður upp á leik þar sem hægt er að spreyta sig á að bera kennsl á ýmsar tegundir runna, plantna og fræja.

„Það er ekki hægt að taka fyrir allar plöntur sem borgin er með en þarna er hægt að skoða brot af þeim. Það er hægt að kynnast þessum plöntum og seinna bera kennsl á plöntuna í borgarlandinu,“ segir Zuzana.

Plöntusafnið er því um leið ákveðið mótvægi við svokallaðri plöntublindu og getur hjálpað fólki að tengjast náttúrunni betur. Ýmsir fræðsluviðburðir verða í boði í gróðurhúsinu.

Í gróðurhúsinu er enn fremur skordýrahótel til að minna á mikilvægi þessara dýra. „Skordýr eru okkur svo mikilvæg, án þeirra væru engin jarðarber eða gúrkur. Ég veit að til dæmis ungir krakkar eru oft hræddir við að vera stungnir. Við ættum ekki að vera hrædd því við þurfum á þeim að halda,“ segir Zuzana. Á staðnum er líka hægt að skoða blákorn, vatnskristalla, vikur og fleira sem notað er við ræktun.

Allir eru velkomnir í plöntusafn Reykjavíkurborgar við Lækjargötu. Virða þarf tveggja metra regluna og það er spritt á staðnum.