Iðunn og Sigurlaug ráðnar skólastjórar

Iðunn og Sigurlaug skólastjórar

Iðunn Pála Guðjónsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Hvassaleitisskóla og Sigurlaug Hrund Svavarsdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Langholtsskóla.

Nýr skólastjóri Hvassaleitisskóla

Iðunn Pála lauk B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræðum frá Háskóla Íslands árið 2006 og hefur starfað við fjölbreytt störf í grunnskóla frá útskrift. Hún hefur starfað í Hvassaleitisskóla í 14 ár þar sem hún hefur verið umsjónarkennari, teymisstjóri, verkefnastjóri, deildarstjóri, aðstoðarskólastjóri og er nú starfandi skólastjóri.

Iðunn Pála hefur í störfum sínum veitt faglega forystu á sviði kennslu og þróunar í skólastarfi og hefur sýnt fram á góða hæfni á því sviði. Hún hefur verið farsæll kennari og skólastjórnandi í Hvassaleitisskóla. Hún þekkir vel starfssemi skólans og þarfir skólaumhverfisins og hefur í störfum sín um sýnt mikla leiðtoga- og stjórnunarhæfni.

Nýr skólastjóri Langholtsskóla

Sigurlaug Hrund hefur lokið grunn- og framhaldsprófi í uppeldis- og menntunarfræðum og lauk kennslufræði til kennsluréttinda árið 2003. Hún hefur stundað framhaldsnám í stjórnunarfræðum menntastofnanna og er í diplómanámi um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna.

Sigurlaug Hrund hefur víðtæka reynslu af vettvangi grunnskóla og málefnum barna. Síðastliðin þrjú ár hefur hún verið fagstjóri grunnskóla í skóla- og frístundadeild Suðurmiðstöðvar og verið næsti yfirmaður grunnskólastjóra í Breiðholti. Þá hefur hún meðal annars verið skólastjóri Fellaskóla í 5 ár, aðstoðarskólastjóri og skólastjóri Hamraskóla í samtals 9 ár og aðstoðarskólastjóri Austurbæjarskóla í eitt ár.

Sigurlaug hefur mikla stjórnunarreynslu og sýnt góða stjórnunarhæfileika og faglega forystu. Hún hefur fengist við fjölbreytt verkefni, leitt breytingar á skólastarfi og innleiðingu á verkefnum eins og Betri borg fyrir börn í Breiðholti.