Íbúaráð fá 30 milljónir til að efla hverfin í sumar

Umhverfi

""

Borgarráð samþykkti í dag að veita íbúaráðum Reykjavíkurborgar alls 30 milljónir króna til úthlutunar í verkefni sem hafa það að markmiði að efla hverfisanda, mannlíf og menningu í sumar. Þannig verður stuðlað að auknum lífsgæðum úti í hverfunum.

Miðað er við að íbúaráðin, en þau eru níu talsins,  fái eina milljón króna hvert en afgangurinn deilist á ráðin samkvæmt íbúafjölda hverfanna.

Fyrir alla aldurshópa

Auglýst verður eftir verkefnum sem uppfylla þessi skilyrði og efla andann og félagsauðinn í hverfunum. Mikilvægt er að verkefnin höfði til allra aldurshópa og skírskoti til breiðs hóps fólks sem vill sækja sér afþreyingu og upplifun í eigin hverfi.

Spennandi verður að sjá hvaða uppákomur verða  á dagskrá í sumar. Víst er að margar skemmtilegar hugmyndir liggja hjá borgarbúum sem gaman verður að sjá verða að veruleika. Nú þegar eru fyrirhugaðar götubitahátíðir, sem borgin styður, í nokkrum hverfum.

Íbúaráð fá góðan stuðning sviða og stofnana borgarinnar

Með íbúaráðum munu eftir atvikum starfa fulltrúar frá skóla- og frístundasviði, umhverfis- og skipulagssviði, menningar- og ferðamálasviði og velferðarsviði ef þess er þörf til að hægt sé að láta verkefnin verða að veruleika á sem hagkvæmastan hátt.

Mannréttinda- og lýðræðisskrifstofa verður einnig íbúaráðunum til stuðnings í undirbúningi og útfærslu auk stofnana borgarinnar í hverju hverfi eftir því sem þurfa þykir.

Borgarráð samþykkti enn fremur í dag að efla miðborgina sem áfangastað í sumar. Tilgangurinn er að styðja við atvinnulíf á svæðinu en ekki síður að bjóða upp á lifandi mannlíf og menningu fyrir alla. Viðburðum verður fjölgað og borgarrými verða lífguð við og endurgerð.

Hlutverk íbúaráða er að styrkja tengingu og stytta boðleiðir milli íbúa og stjórnsýslu borgarinnar, stuðla að aukinni upplýsingagjöf til íbúa, styrkja möguleika þeirra til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri og vekja athygli á áskorunum innan hverfisins.