Íbúafundur um deiliskipulag við Stekkjarbakka

Umhverfi Skipulagsmál

""

Kynningarfundur verður haldinn miðvikudaginn 20. febrúar í Gerðubergi í Breiðholti um deiliskipulag við Stekkjarbakka sem nú er í auglýsingu. Fundurinn hefst kl. 17:30. Hverfisvernd er á Elliðaám, hólmunum og næsta nágrenni. Í auglýstri skipulagstillögu er gert ráð fyrir að fyrirhuguð uppbygging falli vel að landslagi og umhverfi.

Myndin er í fullri stærð hér fyrir neðan og sýnir þróunarsvæði og hverfisvernd í Elliðadalnum.

Borgarráð Reykjavíkur samþykkti nú í janúar að auglýsa nýtt deiliskipulag fyrir Stekkjarbakka (Þ73). Um er að ræða nýtt skipulag á svæðinu norðan Stekkjarbakka þar sem skilgreint er opið svæði og þróunarsvæði samkvæmt Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.

Á íbúafundinum 20. febrúar verður þetta deiliskipulag kynnt, einnig sagt frá vinnu sem hafin er við deiliskipulag Elliðaárdalsins sem er skilgreindur sem borgargarður samkvæmt Aðalskipulagi. Á fundinum verður jafnframt kynning á fyrirhuguðum gróðurhvelfingum ALDIN Biodome á þróunarreitnum við Stekkjarbakka.

Íbúar eru hvattir til að koma á fundinn, spyrja út í kynningar og eiga samtal við sérfræðinga á sviði skipulag- og umhverfismála. Ábendingum og athugasemdum við tillöguna er skilað skriflega eða á netfangið skipulag@reykjavik.is til skipulagsfulltrúa, eigi síðar en 4. mars 2019. Hægt er að skoða tillöguna hér.

Í tilefni af bréfi Hollvinasamtaka Elliðaárdals

Rétt er að nefna nokkur atriði í tilefni af bréfi sem birt var í fjölmiðlum og er frá Hollvinasamtökum Elliðaárdals sem sendu borgarstjórn bréf og hafa boðað undirskriftasöfnun.

Helstu atriði

  • Hverfisvernd er á Elliðaám, hólmunum og næsta nágrenni.
  • Unnið er að deiliskipulagi dalsins þar sem hverfisvernd verður metin nánar.
  • Dalurinn er á náttúruminjaskrá.
  • Dalurinn er mótaður af athöfnum mannsins.
  • Friða mætti einstakar náttúruminjar sem náttúruvætti.

Myndin sýnir umrætt þróunarsvæði í samhengi við hverfisvernd í Elliðaárdalinn í heild. Sjá einnig texta undir mynd.

Tilefni er til að útskýra betur hvaða náttúruvernd er í gildi í Elliðaárdal en ekki er rétt farið með í bréfinu hvernig þeim málum er háttað. Í núgildandi Aðalskipulagi Reykjavíkur er skilgreind hverfisvernd og nær hún til Elliðaánna frá sveitarfélagamörkum við Kópavog við Breiðholtsbraut að brúnum yfir Elliðaár við Vesturlandsveg, ásamt nánasta umhverfi ánna, Blásteinshólma, Árhólma, hrauns, votlendis og mólendis. Þá afmörkun má skoða í Skipulagssjá Reykjavíkurborgar.

Þar að auki er Elliðaárdalur tilgreindur í núgildandi náttúruminjaskrá sem byggð er á ákvæðum laga um náttúruvernd nr. 44/1999 undir flokknum. „Aðrar náttúruminjar sem ber að vernda“. Sjá má afmörkun þeirrar verndar á vefsjá Náttúrufræðistofnunar.

Hjá Reykjavíkurborg er unnið að því að afmarka nánar þá hverfisvernd sem skilgreind er í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 í nýju deiliskipulagi fyrir borgargarðinn Elliðaárdal. Gildandi deiliskipulag fyrir Elliðaárdal er frá 1994. Nýtt deiliskipulag er minna og er byggt á tillögu að afmörkun borgargarðs sem starfshópur á vegum Reykjavíkurborgar skilaði til borgarráðs 2014 og hlaut samþykki. Lengi hefur verið stefnt að endurskoðun deiliskipulagsins og er undirbúningur fyrir lýsingu deiliskipulagsins langt kominn hjá umhverfis- og skipulagssviði Reykjavíkur. Farið hafa fram úttektir á náttúrufari t.d. fuglalífi og jarðminjum og er m.a. stefnt að því að hverfisverndarsvæðið verði stækkað miðað við núgildandi skilgreiningu með tilliti til mats á verndargildi náttúruminja í dalnum.

Elliðaárdalur er að stórum hluta til raskaður og mótaður af athöfnum mannsins og hefur tekið miklum breytingum m.a. vegna landbúnaðar, skógræktar, raforkuvinnslu, byggðamyndunar og margvíslegrar starfsemi og notkunar. Sökum þessa hentar dalurinn í heild sinni ekki vel fyrir flesta flokka friðlýsingar og friðunar nema þá helst sem fólkvangur sbr. 52. grein náttúruverndarlaga nr. 60/2013. Einnig er mögulegt að einstakar náttúruminjar innan Elliðaárdals t.d. jarðminjar, geti verið friðlýstar sem náttúruvætti skv. 48. grein náttúruverndarlagana. Allir slíkir friðlýsingarmöguleikar verða skoðaðir betur við gerð deiliskipulagsins enda eru allar helstu náttúruminjar sem metnar hafa verið með hátt verndargildi í Elliðaárdalnum staðsettar innan marka borgargarðsins sem nýtt deiliskipulag mun ná til.

Varðandi mat á verndargildi Elliðaárdals á landsvísu þá er dalurinn ekki tilgreindur í tillögum Náttúrufræðistofnunar að framkvæmdaáætlun (B-lista) náttúruminjaskrár sem er í vinnslu hjá Umhverfis- og auðlindaráðuneytinu og byggir á nýju ákvæði um náttúruminjaskrá í núgildandi náttúruverndarlögum. Á þeim lista eru svæði sem mælt er með að verði friðlýst í náinni framtíð. Elliðaárdalur er því að svo stöddu ekki metinn sem svæði sem á að vera í forgangi fyrir friðlýsingar á landsvísu vegna mikilvægrar náttúru. Ekki er hægt að útiloka að dalurinn eða hlutar hans verði á C-lista náttúruminjaskrár yfir svæði sem ástæða þykir að friðlýsa en tillaga að C-listanum liggur ekki fyrir að svo stöddu.

Nokkur orð um skipulagstillöguna

Starfsemi sem getur verið á þróunarsvæðinu (Þ73)  norðan Stekkjarbakka og hentar í nálægð útivistarsvæðisins, tengist fyrst og fremst útivist, íþróttastarfsemi eða samfélagsþjónustu, auk þess sem heimilt er að gera ráð fyrir „grænni starfsemi“, ræktun og gróðrarstöð og sem því tengist. Þá er tilgreint í B-hluta aðalskipulagsins að starfsemin geti t.d. verið grænn markaður með mat- og heilsuvörur, gróðrarstöð eða rekstur veitingastaðar og þjónustu í gróðurhúsum/hvelfingum, sem og starfsemi og uppbygging vegna félaga í garðyrkju eða gróðurtengdrar starfsemi. Talið er að uppbygging á svæðinu hafi óveruleg áhrif á útivistargildi Elliðaárdalsins.

Í auglýstri skipulagstillögu er gert ráð fyrir að fyrirhuguð uppbygging falli vel að landslagi og umhverfi og tryggð verði góð tengsl við nærliggjandi umhverfi með fyrirkomulagi nýrra stíga, gatna og opinna grænna svæða. Í tillögunni eru skilgreindar nokkrar lóðir og byggingarreitir og skilmálar útfærðir, þar sem takmarkanir eru m.a. settar á uppbyggingu, útlit og meðferð mengandi efna og ofanvatns.

Alls eru skilgreindar fjórar nýjar lóðir á skipulagssvæðinu og er umfangsmesta heimildin skilgreind á lóð nr. 3, en þar er gert ráð fyrir gróðurhvelfingu og er byggingarmagn samtals 4.500 fermetrar, auk byggingarheimilda fyrir milligólf. Sjónræn áhrif nýbyggingar eru talin óveruleg, þar sem lóðir og byggingarreitir eru staðsettir ofan við náttúrulegan hrygg í jaðri Elliðaárdalsins, sem veldur ekki mikilli truflun á upplifun í dalnum. Að auki eru í tillögunni settar fram kröfur um gróður og grænt yfirbragð lóða sem munu milda ásýnd uppbyggingar á svæðinu. Alls er heimiluð uppbygging 6.600 fermetra, en lóðastærðir eru um 43.000 fm. Nýtingarhlutfall lóða er því um 0,15. Hámarksfjöldi bílastæða verður 95.

Tenglar

Stekkjarbakki í kynningu - gögn

Skipulagssjá

Náttúruminjaskrá

Deiliskipulagsbreyting 1:2000

Tillaga að deiliskipulagsbreytingu, skýringaruppdráttur 1:1000