Í leiknum fæðast hugmyndir – fjölsótt ráðstefna leikskólastarfsfólks

Skóli og frístund

""

Á sjöunda hundrað leikskólastarfsmenn sóttu Leikskólaráðstefnu skóla- og frístundasviðs sem haldin var á Hótel Nordica í morgun. Þessi fagráðstefna er árlegur viðburður sem  haldinn er í tengslum við Leikskóladaginn 6. febrúar. Yfirskriftin  að þessu sinni var „Gott að leika saman, þá fær maður hugmyndir“.

Aðalfyrirlesarar á leikskólaráðstefnunni voru Guðrún Ragnarsdóttir lektor og Svava Björg Mörk, aðjúnkt og verkefnastjóri á Menntavísindasviði HÍ. Þær fjölluðu í erindi sínu um hlutverk leikskólastarfsfólks við innleiðingu breytinga og mikilvægi forystu, náms og sjálfsrýni í því ferli. Þá miðluðu leikskólastjórar og leikskólakennarar þekkingu sín á milli í erindum. Aðalheiður Stefánsdóttir, leikskólastjóri í Reynisholti, hélt erindi um gildi teymisvinnu undir fyrirsögninni „Röddin mín heyrist“ og Sunneva Svavarsdóttir, leikskólakennari í Hulduheimum, fjallaði um upplýsingatækni í kennslu ungra barna. Emilía Rafnsdóttir, ráðgjafi hjá Miðju máls og læsis, hélt erindi undir yfirskriftinni Lærdómssamfélag um mál og læsi í leikskólastarfi.

Á ráðstefnunni voru afhent hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs fyrir framúrskarandi fagstarf í leikskólunum. Markmið verðlaunanna er að vekja athygli á góðum verkum og stuðla að nýbreytni- og þróunarstarfi í kennslu leikskólabarna.

Hvatningarverðlaunin komu í hlut tveggja leikskóla, Brákarborgar sem er einn minnsti leikskóli borgarinnar og Rauðhóls í Norðlingaholti sem er sá stærsti.

Brákarborg fékk verðlaun fyrir verkefnið Lausnarhringurinn sem er myndræn framsetning á helstu lausnum fyrir börn í samskiptum sín á milli, s.s. hugtökin „segja stopp“, „skiptast á“, „bjóða knús“, „bjóða öðrum að vera með“, „geta sagt fyrirgefðu“ og „fullorðnir hjálpa börnum/börn hjálpa fullorðnum“.  

Leiðskólinn Rauðhóll fékk verðlaun fyrir þróunarverkefnið Leyndarmál Rauðhólsgleðinnar sem felst í því að skrá niður skýra stefnu leikskólans um flæði og jákvæða sálfræði með þátttöku barna, foreldra og starfsfólks. Þá fékk Guðrún Sólveig leikskólastjóri í Rauðhóli sérstaka viðurkenningu fyrir framúrskarandi faglega forystu í starfi skólans.  

Alexandra Briem, varaformaður skóla- og frístundaráðs, afhenti hvatningarverðlaunin í upphafi leikskólaráðstefnunnar. 

Ráðstefnustjóri var Elín Mjöll Jónasdóttir, fyrrverandi leikskólastjóri í Drafnarsteini.

Á ráðstefnunni voru einnig frumsýnt myndbönd fyrir starfsfólk leikskólanna um leiðir til að vinna með sjálfseflingu sem er einn grunnþáttur nýrrar menntastefnu borgarinnar Látum draumana rætast. 
Hvað er sjálfsefling? - myndband
Leiðir til sjálfseflingar - myndband