Hvernig er draumaskólinn?

Skóli og frístund Mannlíf

""

Í skemmtilegri smiðju um samfélagslega nýsköpun var leitað svara við því hvernig draumaskólinn gæti verið. Nemendur og kennarar settust á rökstóla í Gerðubergi.  

Nemendur og kennarar í Breiðholtsskóla, Hólabrekkuskóla og Laugalækjarskóla taka þátt í smiðjunni  í dag og á morgun ásamt tíu kanadískum nemendum og kennurum þeirra. Markmiðið með smiðjunni sem fer fram undir yfirskriftinni Nemandinn sem leiðtogi er annars vegar að kynna fyrir nemendum skapandi lausnir í námi og hins vegar að skoða hvernig hægt er að skapa í skólanum frjótt lærdómssamfélag þar sem allir eiga jafnan tillögurétt.

Skóla- og frístundasvið og Argyll Centre í Edmonton í Kanada standa sameiginlega að þessari tveggja daga smiðju sem haldin er í tengslum við innleiðingu menntastefnunnar Látum draumana rætast. Eins og sjá má af myndum skemmtu allir sér vel í umræðum og leik í þessari vinnusmiðju þar sem unnið var með kubba, myndir, hreyfingu, orð og skapandi lausnir. Fjölmargar hugmyndir um draumaskólann voru settar fram á fyrsta degi smiðjunnar.