Hverfisskipulag Breiðholts staðfest

Breiðholt

Hverfisskipulag fyrir Neðra-Breiðholt, Seljahverfi og Efra-Breiðholt hefur tekið gildi og leysir af hólmi eldri deiliskipulagsáætlanir. Helstu markmið hverfisskipulagsins eru að gróin hverfi í borginni verði sjálfbærari og vistvænni en áður, íbúðum fjölgi og þægilegra verði fyrir húseigendur að gera breytingar á fasteignum sínum.

Samræmdir skipulagsskilmálar – einfaldara umsóknarferli

Með samræmdum skipulagsskilmálum, sem m.a. hafa tekið mið af algengum umsóknum um breytingar á fasteignum, verður nú mun auðveldara fyrir húseigendur í Breiðholti að sjá hvaða heimildir þeir hafa til breytinga á sínum fasteignum og einfaldara að sækja um leyfi þar sem tímafrekar og kostnaðarsamar deiliskipulagsbreytingar og grenndarkynningar verða að mestu úr sögunni.

Á upplýsingasíðu hverfisskipulags fyrir Breiðholt geta fasteignaeigendur nálgast allar upplýsingar um skipulagsskilmála sem gilda fyrir viðkomandi eign, ásamt leiðbeiningaritum hverfisskipulags sem leiðbeina um nánari útfærslu ýmissa skilmála og hvernig sækja skuli um leyfi til breytinga og/eða úrbóta. Leiðbeiningar hverfisskipulags eru ekki bundnar einstökum hverfum, heldur eru algildar fyrir öll hverfi borgarinnar sem fá samþykkt hverfisskipulag.

Fjölmargir eigendur sérbýlis- og raðhúsa hafa nú fengið heimild til að útbúa aukaíbúð í sínu húsi, byggja hóflegar viðbyggingar, setja kvisti á þak o.s.frv. Mörgum húsfélögum lyftulausra fjölbýlishúsa í Breiðholti er einnig heimilt að byggja eina hæð ofan á núverandi hús, gegn því skilyrði að um leið verði lyftu komið fyrir við húsið til að bæta aðgengi. Rétturinn til byggingar ofan á fjölbýlishús er alfarið í eigu lóðarhafa sem einir geta ráðstafað honum, ef um það næst samstaða.

Afrakstur umfangsmikils undirbúnings og samráðs

Hverfisskipulag Breiðholts er afrakstur vinnu- og samráðsferlis sem hófst árið 2016. Haldnir hafa verið samráðsfundir með íbúum, bæði nemendum í grunnskóla og eldri íbúum, auk þess sem Gallup stýrði aldursskiptum rýnihópum úr öllum hverfum Breiðholts. Tillögurnar voru kynntar á mismunandi stigum skipulagsvinnunnar, haldnar sýningar og fundir í hverfinu (bæði stað- og streymisfundir), farið í gönguferðir um öll hverfi Breiðholts og tekið á móti athugasemdum á öllum stigum málsins.

Fjölmargar hugmyndir litu dagsins ljós á vinnutíma hverfisskipulagsins. Í samráðsferlinu mæltust einstaka tillögur misvel fyrir og margar hafa ratað í staðfest skipulag en fallið hefur verið frá öðrum. Meðal helstu atriða í hverfisskipulagi Breiðholts eru:

  • Uppbygging og efling hverfiskjarna í öllum hverfum Breiðholtsins, þ.á.m. við Arnarbakka og Eddufell-Völvufell þar sem deiliskipulagsvinnu er að mestu lokið, samhliða gerð hverfisskipulagsins. 
  • Efling byggðar við Austurberg og Gerðuberg þar sem styrkja á miðju Efra-Breiðholts og borgarhlutans, m.a. með uppbyggingu dans- og fimleikahúss sem nýst getur öllum borgarbúum. 
  • Borgargötur sem njóta forgangs við endurhönnun og fegrun verða við Arnarbakka í Neðra Breiðholti, Rangársel í Seljahverfi og Austurberg í Efra Breiðholti. Við borgargötur verða byggðir upp innviðir eins og hverfistorg, hleðslustöðvar og djúpgámar.
  • Hverfiskjarnar við Hólagarð og Rangár- og Hólmasel eru skilgreindir sem þróunarreitir og unnið verður sérstakt deiliskipulag fyrir þá. Sama gildir um Mjóddina þar sem vinna við deiliskipulag hefst á þessu ári.
  • Áhugavert þróunarsvæði er einnig skilgreint við Jórufell, en í skipulagsferlinu komu fram hugmyndir um að þróa þar nýja byggð í samvinnu við Félagsbústaði, sem eiga allar íbúðir þar. Önnur skilgreind þróunarsvæði fyrir nýja byggð eru við Suðurfell og Suðurhóla. 
  • Síðast en ekki síst skal nefna vetrargarð í Seljahverfi sem hlaut feikilega góðar viðtökur í samráðsferli hverfisskipulags. Undirbúningur framkvæmda er þegar vel á veg kominn.

Nánari upplýsingar er að finna á upplýsingasíðu hverfisskipulags í Breiðholti