Hverfið mitt slær nýtt met í hugmyndasöfnun

Betri hverfi

""

Alls höfðu 1.053 hugmyndir skilað sér inn á vefinn Hverfið mitt þegar hugmyndasöfnun lauk á miðnætti. Það er nýtt met í fjölda hugmynda og þá hafa aldrei áður jafn margir heimsótt vefinn meðan á hugmyndasöfnun hefur staðið en alls skoðuðu 38.733 íbúar hugmyndavefinn.  „Við fengum fjölbreyttar, sniðugar, fyndnar, skemmtilegar og frumlegar hugmyndir,“ segir Guðbjörg Lára Másdóttir verkefnisstjóri fyrir Hverfið mitt.

Umtalsverð aukning varð að þessu sinni í þátttöku 25-35 ára og segir Guðbjörg það mikið gleðiefni. Þá voru kynjahlutföll jafnari nú en í fyrra, en 55% hugmynda koma frá konum og 45% frá körlum.  Alls skráðu 5.727 íbúar sig á vefinn og gátu þannig tekið þátt í rökræðu á vefnum.  Aukning varð í fjölda hugmynda frá íbúum sem tala ekki íslensku. „Það er líka gaman að sjá fleiri og fleiri hugmyndir og rökræður frá íbúum sem tala ekki íslensku. Við höfum verið dugleg að deila enskum og pólskum hlekkjum sem kveikja sjálfkrafa á gervigreindarkerfi sem þýðir allt innsent efni yfir á viðkomandi tungumál,“ segir Róbert Bjarnason hjá Íbúum Ses. sem hafa umsjón með vefkerfinu.

Áhersla í ár var að ná til ungs fólks og voru samfélagsmiðlar notaðir hvað mest við kynningu á verkefninu ásamt því að farið var í heimsóknir. Allir grunnskólar á unglingastigi í Árbæ og Grafarholti og Úlfarsárdal voru heimsóttir af verkefnisstjóra ásamt fulltrúum frá þjónustumiðstöð Árbæjar og Grafarholts og Úlfarsárdals.  Í Grafarvogi voru nemendaráð Vættaskóla og Foldaskóla heimsótt.  Einnig var Verslunarskóli Íslands heimsóttur og Landbúnaðarháskóli Íslands en þar var rætt við nemendur sem stunda nám í umhverfisskipulagi.

Nú tekur við yfirferð á hugmyndunum og samtöl um tíu vinsælustu hugmyndir hvers hverfis. Skoðað verður hvort hugmyndirnar séu framkvæmanlegar og í framhaldi unnin frumhönnun og kostnaður metinn.  Guðbjörg segir að ef  hugmynd sé af einhverjum ástæðum ekki framkvæmanleg innan ramma verkefnisins Hverfið mitt fái hugmyndahöfundar aðstoð við að koma hugmyndum sínum á rétta staði. „Áhersla á samráð hefur aukist ár frá ári í verkefninu og hlökkum við mikið til þess að þróa, breyta og bæta verkefnið áfram í sameiningu,“ segir Guðbjörg.