Hverfið mitt- fjölbreytt og skemmtileg verkefni til framkvæmda

Betri hverfi

Klifursteinn á Klambratúni er meðal verkefna sem hafa verið framkvæmd eftir kosningu í Hverfið mitt
Tvö börn klifra á klifursteini á Klambratúni, sem varð til eftir kosningu í Hverfið mitt. Sumar.

Frisbígolfbrautir, infrarauð sauna, ævintýragarður, hugleiðsluróla og gaga völlur eru meðal verkefna sem Reykvíkingar völdu í lýðræðisverkefninu Hverfið mitt á síðasta ári. Borgarráð hefur nú heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út verkefni sem koma til framkvæmda á þessu og næsta ári. Áætlaður kostnaður er 450 milljónir króna.

Hverfið mitt er samráðsverkefni íbúa og stjórnsýslu um forgangsröðun og úthlutun fjármagns til nýframkvæmda í hverfum Reykjavíkurborgar. Þar gefst íbúum kostur á að hafa áhrif á sitt nánasta umhverfi með því að senda inn hugmyndir að verkefnum í sínum hverfum og síðan er kosið á milli þeirra í rafrænni íbúakosningu. Slík kosning fór síðast fram í september 2023 og var kosningaþátttaka í borginni allri 12%. Af þeim sem kusu voru konur í meirihluta með tæp 62% atkvæða, karlar voru rúm 38% kjósenda og kvár 0,04%.

Verkefnin sem kosin voru til framkvæmda í haust eru 62 talsins og er áætlaður framkvæmdatími maí 2024 til desember 2025. Verkefnin eru afar fjölbreytt og eru þau eftirfarandi:

 

Árbær

 • Áningarstaður og bekkir við Rauðavatn
 • Frisbígolfbrautir í Norðlingaholti
 • Leiktæki fyrir börn í Árbæjarlaug
 • Tengja göngustíga við gömlu kartöflugeymslurnar
 • Sumarblóm í hringtorg
 • Samverustaður við Rauðavatn

 

Breiðholt

 • Jólaljós á tré við göngustíg
 • Fjölga bekkjum í Breiðholti
 • Betrumbæta frisbígolfvöllinn í Breiðholti
 • Nálabox
 • Hærri bekkir fyrir eldri borgara
 • Infrarauð sauna í Breiðholtslaug
 • Lýsing við fótboltavöllinn við Bakkasel
 • Mínígolf
 • „Velkomin í Breiðholt“ skilti
 • Útigrill í Seljahverfi

 

Grafarholt og Úlfarsárdalur

 • Stikuð gönguleið við rætur Úlfarsfells
 • Reynisvatn- fallegri aðkoma
 • Göngustígur milli Úlfarsárdals og Hafravatns
 • Gróður og áningarstaðir í Úlfarsárdal
 • Bekkir við Reynisvatn

 

Grafarvogur

 • Gróðurlundur á Geldinganesi
 • Fjölga áningarstöðum í hverfinu
 • Infrarauð sauna í Grafarvogslaug
 • Stjörnukíkir á útsýnispallinum í Húsahverfi
 • Endurbæta Hallsteinsgarð
 • Útiæfingatæki í kringum Grafarvog

 

Háaleiti og Bústaðir

 • Bæta tengingu milli Skeifunnar og göngubrúarinnar
 • Bekkir og ruslatunnur
 • Flokkunartunnur við göngustíga
 • Meiri gróður í Fossvogsdalinn
 • Hjólastæði við Víkingsheimilið í Safamýri
 • Ævintýragarður
 • Gróður við Háaleitisbraut
 • Hugleiðsluróla milli Hólmgarðs og Hæðargarðs
 • Systkinarólur og ungbarnarólur

 

Hlíðar

 • Ærslabelgur á Klambratún
 • Snyrtilegri undirgöng
 • Gróðursetja við umferðargötur
 • Ungbarnarólur í Hlíðunum
 • Fegra hringtorgið við Hlíðaskóla
 • Matjurtagarður í Hlíðunum

 

Kjalarnes

 • Gaga völlur
 • Lítill heitavatnspottur við sjósundsaðstöðuna

 

Laugardalur

 • Jólaland í Laugardalnum
 • Alexöndruróló
 • Gera upp Sunnutorg
 • Útigrill á Aparóló

 

Miðborg

 • Litríkur gróður í Miðborg
 • Gróður við Sæbraut
 • Körfuboltavöllur við Austurbæjarskóla
 • Andahús á Tjörnina
 • Bekkir og blóm á Hlíðarenda
 • Vatnspóstur í Hljómskálagarðinn

 

Vesturbær

 • Grænni Vesturbær
 • Jólaljós í Vesturbæjarlaug
 • Bekkir og ruslatunnur
 • Vatnspóstur við Ægisíðu
 • Leiktæki í Vesturbæjarlaug
 • Vistlegri Meistaravellir
 • Stigi niður í fjöru við Eiðsgranda
 • Útigrill á Landakotstún

Upplýsingar um verkefnin og kostnað við þau.

Glerveggur í Klébergslaug á Kjalarnesi. Grafík. Þrjár manneskjur í sundi að horfa út um vegginn.

Glerveggur í Klébergslaug á Kjalarnesi var settur upp eftir kosningu í verkefninu Hverfið mitt.