Hver hefur náð árangri í vistvænum samgöngum?

Mannlíf Samgöngur

""

Samgönguviðurkenning Reykjavíkurborgar verður veitt í september í tengslum við samgönguviku og nú er kallað eftir umsóknum eða tilnefningum um fyrirtæki, félagasamtök, stofnanir og einstaklinga, sem náð hafa árangri eða gripið til aðgerða í samgöngumálum.

Dómnefndin byggir val sitt á árangri og aðgerðum sem gripið hefur verið til.  Dæmi um aðgerðir er t.d. hvort starfsfólki hafi verið gert auðveldara fyrir með að nýta sér vistvæna samgöngumáta; hvort dregið hafi verið úr umferð og/eða stuðlað að notkun vistvænna orkugjafa.

Fararskjótar, sturtur og strætómiðar 

Betur má sjá áhersluþætti í gátlista á umsóknareyðublaði, en þar eru þessi atriði tilgreind:

  • Lýsið hvernig ferðavenjum starfsfólks er almennt háttað.
  • Hvernig eru ferðavenjur starfsfólks kannaðar og hvenær hófust slíkar mælingar?
  • Hvernig hafa ferðavenjur starfsfólks breyst í gegnum tíðina?
  • Er reglubundið verið að mæla heilsu og/eða fjarvistir starfsmanna? Ef svo er vinsamlegast lýsið nánar.
  • Er boðið uppá sveigjanlegan vinnutíma eða eitthvert fyrirkomulag til að starfsmenn geti ferðast til og frá vinnu utan annatíma?
  • Lýsið þeim fararskjótum sem eru í boði fyrir starfsfólk á vinnutíma, t.d. hvort hjól eða bílar séu tiltæk fyrir starfsfólk til vinnutengdra og/eða persónulegra ferða?
  • Lýsið þeirri aðstöðu sem er til staðar til að geyma reiðhjól.
  • Er aðstaða fyrir starfsfólk til að fara í sturtu og/eða til að skipta um föt í boði fyrir þá sem mæta til vinnu hjólandi eða gangandi?
  • Er hægt að nálgast strætómiða á vinnustað?
  • Hvernig er bílastæðamálum fyrirtækisins hagað til að hafa hvetjandi áhrif á virkan samgönguhátt starfsmanna?
  • Eru innstungur fyrir rafbíla og/eða hjól til staðar við vinnustaðinn?
  • Veitir fyrirtækið starfsfólki samgöngustyrk eða annan fjárhagslegan hvata til að nýta vistvænar samgöngur í ferðir til/frá vinnu? Ef svo er, hvernig er þeim hvatagreiðslum háttað?
  • Er fræðsla og/eða þjálfun í boði fyrir starfsfólk sem tengist virkum samgöngumátum, s.s. hjólafærni? Er sú fræðsla ókeypis og í boði á vinnutíma?

Gátlistinn er til að einfalda gerð umsóknarinnar og auðvelda dómnefnd áreiðanlegan og réttmætan samanburð. Aðeins þarf að svara því sem við á og vakin athygli að listinn er ekki tæmandi.

Skil umsókna til 17. september 2018

Umsóknir og tilnefningar verða að hafa borist Reykjavíkurborg í síðasta lagi í lok dags 17. september næstkomandi, merktar „Samgönguviðurkenning“. Þær sendist á netfangið usk@reykjavik.is eða á póstfangið Borgartún 12-14, 105 Reykjavík.

Umsóknareyðublað um samgönguviðurkenningu Reykjavíkurborgar 

Samgönguviðurkenningar liðinna ára   

Eftirtaldir aðilar hafa fengið samgönguviðurkenningu Reykjavíkur undanfarin ár:

  • 2017: Orkuveita Reykjavíkur og Verkís
  • 2016: Advania, Bike Cave og Hjólakraftur
  • 2015: ÁTVR og Eva Ólafsdóttir 
  • 2014: Sesselja Traustadóttir, Landspítalinn og Fjármálaeftirlitið 
  • 2013: Landsbankinn og Hugsmiðjan 
  • 2012: Mannvit, Alta og Landsamtök hjólreiðamanna