Hvatningarverðlaun og uppskera í frístundastarfi

Skóli og frístund

Hvatningarverðlaun fyrir frístundastarf 2023.

Félagsmiðstöðin Frosti, félagsmiðstöðin Hellirinn og frístundaheimilið Klapparholt hlutu hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs 2023 fyrir framúrskarandi frístundastarf. Verðlaunin voru veitt í morgun á uppskeruhátíð frístundamiðstöðvanna í Reykjavík sem kallast Höfuðið í bleyti.

Sendiherrar, matarmenning og samskipti

Uppskeruhátíðin er vettvangur til að skiptast á hugmyndum og reynslu og fór vinnan fram í málsmiðjum um allt Gerðuberg því af nógu var að taka. Dæmi um verkefni eru: Sendiherrar í Breiðholti sem snýst um upplýsingamiðlun og tenging í gegnum lykilaðila, Gefðu 10 – samtal og samskipti í fjöltyngdum barnahópum, Mundo matarklúbbur sem snýr að því að elda mat frá ólíkum löndum, Kvikmyndahátíðin Filman sem er kvikmyndaverkefni fyrir börn í 3. og 4. bekk, 16+ í Miðbergi fyrir eldri börn, Tökum samtalið! Klám er ekki kynfræðsla, Stúdíóhópur Frosta og mörg, mörg fleiri.

Áhersla á fjölmenningu og inngildingu

Áhersla Höfuðið í bleyti í ár var á fjölmenningu og tækifæri frístundastarfs til að ná til og styðja við öll börn. Sema Erla Serdarogou, aðjúknt á Menntavísindasviði, hélt fyrirlestur um fjölmenningu og inngildingu í frístundastarfi en rannsóknir benda til að mörg börn og ungmenni af erlendum uppruna hafi upplifað ýmsa erfiðleika í skóla- og frístundastarfi, og íþrótta- og tómstundastarfi. Ljóst er að þátttaka í skipulögðu frístundastarfi og íþrótta- og tómstundastarfi getur skipt sköpum fyrir líðan þeirra, farsæld og inngildinu.

Verkefnin sem hlutu hvatningarverðlaun:

Ex menn listaklúbbur í félagsmiðstöðinni Frosta

Verkefnið samanstendur af hópi skapandi unglinga sem fengu tækifæri til þess að rækta sinn innri listamann undir handleiðslu starfsfólks Frosta. Hópurinn fékk kynningar á hinum ýmsu listgreinum, prufuðu sig áfram og settu svo upp listasýningu í Gallerí Vest sem vakti mikla lukku. Verkefni sem þetta eflir sjálfsmynd barnanna, styrkir þau í að vera virkir þátttakendur í eigin frítíma og bíður uppá frábært tækifæri til að æfa félagsfærni sem er mikilvægur þáttur í frístundastarfi í Reykjavík.

Umsjón: Brynja Helgadóttir, Rúnar Örn Marinosson og Rafnhildur Rósa Atladóttir.  

Vinna einstaklingsáætlana með börnum og unglingum í félagsmiðstöðinni Hellinum

Í félagsmiðstöðin Hellinum hefur í vetur verið lögð áhersla á að valdefla börn og unglinga í frístundastarfinu. Það er gert með því að tryggja að þau séu virkir þátttakendur í markmiðasetningu þegar unnið er að einstaklingsáætlunum barnanna. Hellirinn leggur þannig áherslu á að börnin hafi áhrif á hvernig frítíma þeirra er háttað, í hvaða aðstæðum þau þurfa eða vilja aðstoð og hvaða markmið þau vilja setja sér í starfinu. Dómnefndin metur þetta vinnulag til mikillar fyrirmyndar og fagnar því að börn með fatlanir fái í meira mæli að hafa áhrif á hvernig frítíma þeirra er háttað.

Umsjón: Þuríður Marín Jónsdóttir og Eva Helgadóttir.

Frístundalæsi í frístundaheimilinu Klapparholti

Frístundaheimilið Klapparholt hefur lagt mikla áherslu á frístundalæsi í starfi sínu síðastliðið ár og því stuðlað að aukinni færni barna í læsi og málskilningi. Frístundastarfið hefur verið unnið í samstarfi við Norðlingaskóla og hafa áherslur í frístundaheimilinu tengst viðfangsefni kennslu skólans. Meðal annars hefur frístundaheimilið lagt áherslu á málörvun í klúbbastarfi vetrarins með klúbbum eins og spurningabombu, bókasafnsklúbbum, hlaðvarps- og stuttmyndagerð og svo framvegis. Frístundaheimili um alla borg hafa nýtt sér hugmyndafræði frístundalæsis og það er mat dómnefndar að Klapparholt hafi gert það afburðavel og sé öðrum til fyrirmyndar hvað það varðar.

Umsjón: Pétur Finnbogason.

Viðurkenning fyrir samstarfsverkefni

Tölum saman: Klám er ekki kynfræðsla – frístundamiðstöðin Tjörnin

Frístundamiðstöðin Tjörnin með Evu Halldóru í broddi fylkingar tók áskoruninni um bætta kynfræðslu til ungmenna landsins með trompi í samstarfi við Jafnréttisskólann, Stígamót og Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Saman hafa þau skapað leiðarvísi og kennsluefni fyrir foreldra til þess að ræða við börn og unglinga um klám og skaðsemi þess. Verkefnið er mjög metnaðarfullt og hefur afrakstur þess verið sendur til foreldra um allt land. Kennsluefnið er myndbönd og spurningar og svör sem gætu komið upp í samtali barns og foreldris um þetta viðkvæma en jafnframt gífurlega mikilvæga málefni.