Hvatningarverðlaun fyrir leikskólastarf afhent í sautjánda sinn

Skóli og frístund

Hvatningarverðlaun Funaborg

Hvatningarverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur fyrir leikskólastarf voru veitt í gær. Þetta er í sautjánda sinn sem hvatningarverðlaunin eru veitt en þeim er ætlað að vekja athygli á því gróskumikla skóla- og frístundastarfi sem fram fer í leikskólum borgarinnar.

Verkefnin snúa að málþroska, skynörvun og flæði á milli skóla og frístundastarfs

Tvö verkefni hlutu myndverk eftir Ísak Óla Sævarsson listamann í verðlaun. Eitt samstarfsverkefni, þriggja starfsstaða, fengu fallegar Svölur, leirlistaverk frá Listasmiðju Sólheima. Verkefnin hafa beina skírskotun í Menntastefnu Reykjavíkurborgar og tengjast grundvallarþáttum hennar og leiðarljósum. 

Hvatningarverðlaunin voru afhent í viðkomandi leikskólum eftir hádegi í gær. Leikskólinn Funaborg hlaut verðlaun fyrir verkefnið, Bernskulæsi – Gríptu tækifærið og leikskólinn Múlaborg fyrir verkefnið Skynörvun - Óhefðbundnar leik- og námsleiðir. Þá var það samstarfsverkefni leikskólans Bergs, Klébergsskóla og Frístundaheimilisins Kátakots fyrir samstarfsverkefnið, Allir saman á Klébergi.

Tækifæri til náms og málþroska

Verkefnið Bernskulæsi – Gríptu tækifærið, snýst um að allar aðstæður eru tækifæri til náms og málþroska barna. Undir verkefnið falla, sjónrænar vísbendingar, söngstundir, Köttur úti í mýri, Lubbi finnur málbein, gefðu 10 og Funaflóð. Funaflóð er til dæmis stund þar sem öllum börn leikskólans er skipt í hópa eftir getu, áhuga, færni og aldri. Þar fer fram ómetanleg málörvun og tækifæri til að meta stöðu hvers barns á meðan þau njóta stundarinnar í margvíslegum skipulögðum verkefnum. Verkefnin eru meðal annars, spil, segja sögu, lesa sögu, bókabíó, söngur og gítarspil. 

Edda Sigrún Svavarsdóttir og Agnes Björg Kristjánsdóttir stýra verkefninu sem allt starfsfólk leikskólans tekur þátt í. Segir meðal annars í umsögn dómnefndar að verkefnið efli fagauð leikskólans til muna og sé mjög til eftirbreytni fyrir aðra leikskóla.

Hvatningarverðlaun Funaborg

Unnið með raksápu, tættan pappír og hrísgrjón

Verkefnið Skynörvun - Óhefðbundnar leik- og námsleiðir í Múlaborg nær til úti- og inniveru og allra námsþátta í leikskólastarfinu. Verkefnin eru mjög ólík en meðal annars er unnið með mismunandi áferðir, lyktarskyn, bragðskyn og sjónskyn. Margt er skemmtilegt en það að vinna með raksápu, ull, vatn, tættan pappír, hveiti, hrísgrjón, ljós, skjávarpa og myndvarpa slær alltaf í gegn. Stöðugt bætist í verkefnasafnið, tækni og ljós eru orðin stór partur af þessari vinnu. Lögð er áhersla á að öll börnin geti tekið þátt alltaf. 

Í umsögn dómnefndar segir meðal annars að hugmyndaflug starfsfólks sé með ólíkindum og það greinilega í stöðugri leit og þróun, og að innlifun þeirra veki sérstaka athygli. 
 

Hvatningarverðlaun Múlaborg

Fara í grunnskólann einu sinni í viku

Samstarfsverkefni leikskólans Bergs, Klébergsskóla og Frístundaheimilið Kátakots snýst um auka samfellu í námi og starfsháttum starfsstaðanna. Leikskólabörnum gefst tækifæri til að kynnast grunnskóla- og frístundalífinu áður en skólaganga hefst. Þau fara í grunnskólann og frístundina einu sinni í viku allan veturinn þar sem þau taka þátt í frímínútum, kennslustundum, fara í frístund og borða með grunnskólabörnum. Þau fara einnig í sund og íþróttir. Kennarar og starfsfólk á báðum skólastigum vinna saman að námi og þroska barnanna. Mörg verkefni eru sameiginleg eins og þemaverkefni í tengslum við Grænfánann, dag íslenskrar tungu, umhverfisdaga og börn í leik- og grunnskólanum gróðursetja saman tré í Barnalundinum á Kjalarnesi. Nemendum unglingastigsins býðst að velja leikskólann og frístund sem valgrein og hafa sumir komið til starfa í leikskólanum og frístundaheimilinu seinna meir. Í umsögn dómnefndar segir að verkefnið sé til fyrirmyndar og eftirbreytni.

Hvatningarverðlaun samstarfsverkefni Kléberg

Dómnefnd skipuðu: Alexandra Briem formaður, Ásta Björg Björgvinsdóttir, Helgi Áss Grétarsson, Guðný Maja Riba fyrir hönd kjörinna fulltrúa. Andrea Sigurjónsdóttir fyrir Félag leikskólakennara, Halldóra Guðmundsdóttir fyrir Stjórnendur leikskóla og Sunneva Svavarsdóttir fyrir hönd foreldra.