Hvassahraun verði fullkannað

Umhverfi Stjórnsýsla

""

Borgarstjóri og samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hafa undirritað samkomulag sem felur í sér að hrinda í framkvæmd verkefnum og nauðsynlegum rannsóknum í samræmi við tillögur í skýrslu stýrihóps um framtíðarskipan flugvallarmála á suðvesturhorni landsins.

Samkomulagið sem undirritað var í samgöngurráðuneytinu í dag af Degi B. Eggertssyni borgarstjóra og Sigurði Inga Jóhannssyni, samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, felur í sér að ríki og borg hefji samstarf um rannsóknir á möguleikum á byggingu nýs flugvallar í Hvassahrauni með það að markmiði að fullkanna kosti þess að reisa og reka þar flugvöll til að gegna hlutverki varaflugvallar, innanlandsflugvallar og flugvallar fyrir æfinga-, kennslu- og einkaflug.
 

Unnið á grundvelli fyrri athugana

Samkomulagið gerir ráð fyrir að verkefnið verði unnið á grunni niðurstaðna skýrslu nefndar undir forystu Eyjólfs Árna Rafnssonar um greiningu valkosta um framtíðarskipan flugvallarmála á SV-horni landsins, sem skilað var til ráðherra í dag, en byggir jafnframt á vinnu fyrri nefnda um flugvallarmál á höfuðborgarsvæðinu og eftir atvikum á þeim athugunum sem Icelandair Group hefur látið vinna á mögulegu flugvallarstæði í Hvassahrauni.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir samkomulagið mikilvægt. „Það hefur líka verið mikill styrkur að því að allir lykilhagsmunaaðilar hafa átt sæti í nefndinni og komið að málinu. Óopinbert markmið nefndarinnar var að vera síðasta nefndin um flugvallarmálið. Ég bind miklar vonir við að það hafi tekist. Nú er kominn grundvöllur til að taka skýra stefnu í málinu og hefja rannsóknir á nýju flugvallarstæði í Hvassahrauni,“ segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri

 

Nauðsynlegar rannsóknir í Hvassahrauni

Á fyrstu tveimur árum verkefnisins verði unnar þær rannsóknir sem nauðsynlegar eru til að hægt sé að leggja mat á frekara framhald þess:

a. Framkvæmdar nauðsynlegar veðurrannsóknir og flugprófanir.

b. Framkvæmdar nauðsynlegar rannsóknir á vatnsvernd og öðrum umhverfisþáttum.

c. Greindir möguleikar og kostnaður við greiðar landsamgöngur við annars vegar miðborg Reykjavíkur og hins vegar Keflavíkurflugvöll.

d. Greind áhrif þess á eftirfarandi flugstarfsemi ef hún yrði færð af Reykjavíkurflugvelli yfir á nýjan flugvöll í Hvassahrauni:

1) Áætlunarflug innanlands.

2) Sjúkra- og björgunarflug.

3) Varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll.

4) Atvinnuflug tengt ferðamönnum.

5) Kennslu-, æfinga- og einkaflug.

e. Greindur áætlaður nýtingarstuðull flugvallar í Hvassahrauni í samanburði við þá flugvelli sem fyrir eru á SV-horninu.

f. Lagt mat á hve mikið land myndi þurfi að leggja undir flugvöll í Hvassahrauni, það staðsett og kannaðir möguleikar á uppbyggingu þar.

 

Drög að hönnun Hvassahrauns

Telji aðilar að fengnum niðurstöðum rannsókna skv. 2. mgr. að þær gefi tilefni til að halda áfram undirbúningi flugvallar í Hvassahrauni verður hafist handa við þau frekari verkefni sem nauðsynleg eru svo hægt verði fyrir lok árs 2024 að taka ákvörðun um hvort af byggingu flugvallarins verði. Meðal þeirra eru:

a. Unnin drög að hönnun flugvallar í Hvassahrauni.

b. Unnin drög að nauðsynlegum skipulagsáætlunum í samvinnu við viðkomandi sveitarfélög.

c. Unnin drög að umhverfismati flugvallar.

d. Unnin ítarleg stofnkostnaðar-, framkvæmda- og rekstraráætlun fyrir nýjan flugvöll.

 

Fjármögnun

Aðilar munu hvor um sig leggja 100 milljónir króna til fjármögnunar þeirra nauðsynlegu rannsókna sem gerðar verða á næstu tveimur árum í samræmi við 2. mgr. 2. gr. samkomulagsins.

Telji aðilar að fengnum niðurstöðum rannsókna samkvæmt 2. mgr. 2. gr. samkomulags þessa rétt að halda áfram undirbúningi flugvallar í Hvassahrauni, sbr. frekari verkefni sem talin eru upp í 3. mgr. 2. gr. samkomulags þessa, lýsa aðilar því yfir að þeir muni gera með sér samkomulag um skiptingu kostnaðar vegna þeirra verkefna.

 

Starfshópur skipaður

Skipaður verður starfshópur sem mun bera ábyrgð á nánari útfærslu og framkvæmd fyrri hluta verkefnisins, sbr. 2. mgr. 2. gr. samkomulagsins, skipaður sex fulltrúum, tveimur frá hvorum aðila og tveimur frá sveitarfélögum á Suðurnesjum, þar af annar frá Sveitarfélaginu Vogum. Sérstakur verkefnisstjóri verður ráðinn til að vinna með hópnum og móta tíma- og verkáætlun. Fulltrúar hagsmunaaðila verða kallaðir til eftir því sem þörf krefur.

Starfshópurinn skal skila aðilum skýrslu sinni um niðurstöður rannsókna skv. 2. mgr. 2. gr. samkomulagsins fyrir lok árs 2021. Aðilar munu að fengnum þeim niðurstöðum taka ákvörðun um framhald verkefnisins, sbr. 3. mgr. 2. gr. samkomulags þessa.

 

Reykjavík geri breytingar á aðalskipulagi

Aðilar eru sammála um að stefnt skuli að því að flytja núverandi flugstarfsemi af Reykjavíkurflugvelli yfir á nýjan flugvöll í Hvassahrauni, reynist það vera vænlegur kostur og fyrir liggi niðurstaða um fjármögnun hans.

Aðilar eru sammála um að tryggt verði rekstraröryggi á Reykjavíkurflugvelli á meðan undirbúningi og gerð nýs flugvallar stendur, þar með talið eðlilegt viðhald og endurnýjun mannvirkja í samræmi við ákvæði gildandi samgönguáætlunar Alþingis.  Miðað verði við að Reykjavíkurflugvöllur geti áfram þjónað innanlandsflugi á fullnægjandi háttþar til að nýr flugvöllur er tilbúinn til notkunar.

Reykjavíkurborg lýsir yfir vilja sínum til þess að tryggja nauðsynlegar breytingar á aðalskipulagi Reykjavíkur í samræmi við 2. mgr. 5. gr. samkomulags þessa.

Ef til flutnings Reykjavíkurflugvallar kemur skuldbinda íslenska ríkið og Reykjavíkurborg sig til þess að ganga til frekari samninga um útfærslu þess og nánari tímasetningu, sbr. fyrirvara í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030.

Ef flugvöllur í Hvassahrauni reynist ekki vænlegur kostur að athugunum skv. 2. gr. loknum taki aðilar upp viðræður um málið að nýju.

Samkomulag þetta víkur ekki til hliðar samkomulagi innanríkisráðherra og borgarstjóra frá 25. október 2013 um að ráðuneytið og Isavia ohf. hafi forgöngu um að kennslu- og einkaflugi verði fundinn nýr staður í nágrenni borgarinnar.

Samkomulag um Hvassahraun

Frétt á vef samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins