Hvað geta snjalllausnir gert fyrir borgarbúa?

þriðjudagur, 16. janúar 2018

Umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar stendur fyrir gagnrýninni og hressilegri fundarröð um þróun og mótun borgarinnar. Snjalllausnir í borgum verða ræddar á næsta fundi, þriðjudaginn 16. janúar á Kjarvalsstöðum kl. 20.  

  • Borgin, heimkynni okkar
    Borgin, heimkynni okkar

Hvaða áhrif hafa snjalllausnir á ferðatíma, mengun, raforku og og hvaða tækifæri felast í snjallborginni?  Hvað með snjöll bílastæði, snjallar ruslafötur, snjalla götulýsingu o.s.frv. Býr snjallt fólk í snjöllum borgum? Mun snjalltæknin víkka sjóndeildarhringinn? Snjallborg notar upplýsinga-, samskipta- og fjarskiptatækni til að bæta lífsgæði borgarbúa.

Snjallborgir (Smart city) og snjalllausnir verða til umræðu í fundarröðinni Borgin, heimkynni okkar sem umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar stendur fyrir á  kaffihúsinu á Kjarvalsstöðum þriðjudaginn 16. janúar kl. 20.  

Gestir fundarins eru Lilja G. Karlsdóttir samgönguverkfræðingur hjá Viaplan , Helga Valfells framkvæmdastjóri Crowberry Capital og Kristinn Jón Ólafsson verkefnisstjóri snjallborgarinnar hjá Reykjavíkurborg sem munu spá í efnið ásamt Hjálmari Sveinssyni formanni umhverfis- og skipulagsráðs Reykjavíkurborgar.

Snjallborgin - Smart City Reykjavík - tvinnar saman hagsmuni borgarbúa og tækninýjungar.Margar spurningar vakna sem gaman er að glíma við, t.d. Hvaða jákvæðu margföldunaráhrif verða þegar borgir leggja áherslu á að nýta nýjustu tækni og hvaða tækifæri veitir það nýsköpunarfyrirtækjum? Hvernig getur Reykjavíkurborg nýtt sér snjalllausnir betur? Hvaða snjöllu umferðarkerfi eru u.þ.b. að verða að veruleika? Hvað með sjálfkeyrandi bifreiðar? 

Markmið fundarraðarinnar

Markmið fundarins er að færa umræðu um skipulags- og umhverfismál í vítt og breitt samhengi. Leitað er eftir gagnrýninni og hressilegri umræðu þar sem ólík sjónarmið og reynsluheimar mætast á málefnalegum grunni. Fundirnir hafa verið mjög vel sóttir, bæði af fagfólki og áhugafólki um skipulag og umhverfi borgarinnar. Rætt er um brýn efni á mannamáli út frá skemmtilegum sjónarhornum um brýn efni. Þetta er fyrsti fundurinn á vormisseri 2018 .  

Þetta er átjandi fundurinn í röðinni en hægt er að horfa á fyrri fundi á vefsvæðinu: netsamfelagid.is  

Allir velkomnir, heitt á könnunni.

Tengill

Fundarröðin Borgin, heimkynni okkar - upptökur

Auglýsing

Smart city - skilgreining wikipedia