Hugmyndasöfnun á Betri Reykjavík gengur vel

Betri hverfi Stjórnsýsla

""
Hugmyndasöfnun vegna nýframkvæmda og viðhaldsverkefna á Betri Reykjavík fer vel af stað, en í fyrstu viku hennar voru settar inn um 300 hugmyndir. Hugmyndasöfnuninni lýkur 15. júní og því hafa íbúar enn svigrúm til að setja inn hugmyndir. 
 
Engin takmörk eru á fjölda hugmynda sem hver og einn getur sett inn og hver og einn getur einnig sett inn hugmyndir í fleiru en einu hverfi. Þegar hugmynd hefur verið sett inn er hægt að deila henni á samfélagsmiðla og vekja athygli á henni. Þannig getur skapast stemning um hugmyndir og aðrir  geta sett inn rök með eða á móti hugmynd.

Breiðholt ætlar að rjúfa 100 hugmynda múrinn

Í morgun höfðu 320 hugmyndir verið skráðar á vefinn og þar af voru 52 í Breiðholti, 42 í Laugardal, 40 í Háaleiti og Bústöðum, 38 í Grafarvogi og 37 í Grafarholti og Úlfarsárdal.  Hægt er að sjá nýjustu tölur fyrir öll hverfin á Hverfið mitt á Betri Reykjavík 
 
Arnar Snæberg Jónsson verkefnisstjóri hjá Þjónustumiðstöð Breiðholts segir að það sé góð stemning í hverfinu fyrir hugmyndasöfnuninni og setja þau markið á að ná inn 100 hugmyndum. Meðal hugmynda sem þar má sjá eru útigrill, ruslatunnuskrýmsli, fjölskyldusvæði, bókasafn, lagfæringar á göngustígum, blak- og tennisvöllur, körfuboltavöllur, hringtorg, gangbraut, íþrótta- og leikjaparadís, lagfæringar á girðingu, planta trjám, styttur o.fl. o.fl.  Hvatt er til að íbúar fari inn og færi inn rök með og móti hugmyndum, láti sér þær vel líka með því að smella á hjarta við hugmyndir eða deili þeim á samfélagsmiðla. 
 

Myndarlegri hugmyndir og fjárhæðir

Þeir sem hafa sett inn hugmyndir nýta það vel að vefsíðan Betri Reykjavík hefur verið endurbætt þannig að nú geta íbúar sett inn ljósmyndir eða teikningar með hugmyndum sínum til að skýra þær betur út og gera framsetningu þeirra líflegri.
 
Alls eru 450 milljónir til framkvæmda á þeim hugmyndum sem koma inn í ár og er það veruleg hækkun frá fyrri árum þegar 300 milljónir voru til ráðstöfunar.
 
Skipting fjármuna milli hverfa fer að hluta til eftir íbúafjölda og skiptist framkvæmdafé með eftirfarandi hætti:
 
Hverfi:
Upphæð:
Árbær
41.558.350
Breiðholt
69.957.904
Grafarholt og Úlfarsárdalur
29.004.563
Grafarvogur
60.640.770
Háaleiti og Bústaðir
50.916.979
Hlíðar
39.002.223
Kjalarnes
13.753.565
Laugardalur
55.376.368
Miðborg
33.986.795
Vesturbær
55.802.389
 

Hugmyndasöfnun lýkur 15. júní 2016

Með hugmyndasöfnuninni er óskað er eftir snjöllum hugmyndum frá íbúum um smærri nýframkvæmda- og viðhaldsverkefni í hverfum Reykjavíkur til að kjósa um í hverfakosningu Betri Reykjavíkur.
 
Markmiðið er að hugmyndirnar:
  • nýtist hverfinu í heild.
  • kosti ekki meira en er í framkvæmdapotti hverfisins.
  • krefjist ekki mjög flókins undirbúnings og framkvæmdar.
  • falli að skipulagi borgarinnar og stefnu, sé í verkahring borgarinnar og á borgarlandi.
Hugmyndir geta t.d. varðað:
  • umhverfi og möguleika til útivistar og samveru, s.s. bekkir, gróður, útilistaverk, fegrun.
  • aðstöðu til leikja eða afþreyingar, s.s. að bæta leiksvæði og endurnýja leiktæki.
  • betri aðstöðu til göngu, hjólreiða og notkun almenningssamganga, s.s. stígatengingar, lýsingu, lagfæringu gönguleiða.

Hverfið mitt – verkáætlun og tímasetningar

Verkefnið í heild er í fjórum fösum. Hugmyndasöfnun, úrvinnsla, kosningar og framkvæmd.
 
Helstu tímasetningar eru þessar:
  • Hugmyndasöfnun í þrjár vikur – 25. maí – 15. júní 2016.
  • Fagteymi hjá umhverfis- og skipulagssviði metur innkomnar hugmyndir.
  • Hverfisráðin í Reykjavík stilla upp 20 verkefnum í hverjum borgarhluta til kosninga.
  • Rafræn kosning um verkefni til framkvæmda  - 1. – 8. nóvember 2016.
  • Undirbúningur útboðs. Verkhönnun verkefna og gerð útboðsgagna. 
  • Framkvæmd apríl til september 2017.