Hugmyndaleit fyrir Hlemmtorg

Atvinnumál Samgöngur

""

Hlemmur er staður þar sem rækta má blómstrandi mannlíf og leitar Reykjavíkurborg því að hugmyndum að nýju skipulagi á svæðinu. 

Reykjavíkurborg hefur boðið þremur arkitektastofum: Landslagi, DLD land design, og Mandaworks frá Svíþjóð að leggja fram hugmyndir að nýju skipulagi á Hlemmtorgi.

Leitað er eftir hugmyndum um framtíðarútlit í takt við nýja uppbyggingu og starfsemi á svæðinu í kringum Hlemm. Hugmyndaleitinni er ætlað að leiða til deiliskipulags og nýs heildarútlits svæðisins.

Markmiðið er að svæðið verði að heildstæðu borgarrými sem styður við þá þéttingu sem orðið hefur og framundan er í Holtunum, Túnunum,  á Heklureit og við Hverfisgötu. Einnig verður horft til breytinga á samgönguskipulagi svæðisins með tilkomu borgarlínu og breytingum á umferð strætó.

Mathöllin við Hlemm og breytt starfsemi hefur þegar sett mark sitt á svæðið og gefur til kynna að blómstrandi mannlíf geti þar þrifist. Hús sem stóð áður við Hverfisgötu 125, Norðurpóllinn, mun verða fundin ný staðsetning á torginu.

Hlemmtorg mun verða að nútíma borgarrými þar sem gangandi, hjólandi og almenningssamgöngum verður gert hátt undir höfði með mannvænum dvalarsvæðum og iðandi borgarumhverfi.

Hlemmur verður þannig að nýjum að miðpunkti í austurhluta miðborgarinnar. Miðstöð samgangna, samskipta og lífs.

Gert er ráð fyrir að niðurstöður hugmyndaleitarinnar muni liggja fyrir í mars 2018.