Hugað að þörfum og upplifun á Fossvogsbrúnni

Borgarlínan Samgöngur

Fossvogsbrú

Væntanleg Fossvogsbrú er hluti af uppbyggingu Borgarlínunnar en mun einnig nýtast vel fyrir bæði gangandi og hjólandi vegfarendur.

Í vinningstillögunni í hönnunarsamkeppni sem haldin var um brú yfir Fossvog er hönnun og fyrirkomulag umferðar á Fossvogsbrú úthugsað. Tillagan tekur mið af þörfum og upplifun allra sem munu eiga leið um hana, hvort sem er gangandi, hjólandi eða með Borgarlínunni.

Á fyrstu hönnunarstigum var tekið til skoðunar að hafa göngustíg vestan á brúnni og að vel athuguðu máli varð sú hönnun sem unnið er með fyrir valinu. EFLA, ásamt BEAM Architects, varð hlutskörpust í hönnunarsamkeppninni og nefnist vinningstillagan Alda.

Hönnun svæðisins við brúna gefur kost á góðu útsýni til vesturs báðum megin brúar. Útsýnisstaðirnir við brúarendana eru hannaðir sérstaklega til þess nýta útsýni að Bessastöðum, Snæfellsjökli og sólsetrinu yfir Skerjafirði.

Göngustígurinn austan á brúnni bindur saman 5 kílómetra göngu- og hlaupaleið um Fossvoginn. Þaðan er fallegt útsýni yfir fjölbreytt útivistarsvæði og strandlengju Fossvogs. Af áningarstöðum við göngustíginn á brúnni er einnig ágætt útsýni til vesturs út Skerjafjörð, jafnvel þótt þaðan sé horft yfir sérrými Borgarlínunnar og hjólastíg.

Öruggt fyrir gangandi og hjólandi

Hjólastígur er staðsettur að vestanverðu til að fjarlægja hraðskreiða hjóla- og rafskútuumferð af göngusvæðinu og einnig til að styrkja við norður-suður hjólaferðir eftir strandlengju höfuðborgarsvæðisins. Sú staðsetning hefur fæstar þveranir fyrir hjólandi vegfarendur við Borgarlínuna á Kársnesi. Ekki er litið svo á að hönnunin forgangsraði hjólreiðafólki fram yfir gangandi vegfarendur, heldur er henni ætlað að skapa betra og öruggara umhverfi fyrir gangandi vegfarendur og skila ávinningi fyrir báða ferðamáta.

Kópavogsmegin hefur planlega brúarinnar hliðrast um 12 metra vestar í hönnunarferli til að ná betri tengingu við Bakkabraut. Í Reykjavík hefur planlega brúarinnar hliðrast um 30 metra til austurs í hönnunarferli til að stytta leið almenningssamgangna milli Háskólans í Reykjavík og Kársness um 55 metra og til að einfalda hæðarlegu. Á brúnni verða tvær akreinar fyrir almenningssamgöngur, ein í hvora átt, með tvöfaldan hjólastíg vestan megin og göngustíg austan megin.

Hluti af Samgöngusáttmála

Fossvogsbrú er hluti af verkefnum sem heyra undir Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins sem gerður var milli ríkisins og sveitarfélaganna sex á höfuðborgarsvæðinu árið 2019. Betri samgöngur ohf., Vegagerðin, Reykjavíkurborg og Kópavogsbær vinna saman að undirbúningi brúarinnar í samstarfi við EFLU.