Hreinsum saman um helgina

Umhverfi

""

Reykjavíkurborg tileinkar dagana 23.- 28. apríl átakinu Hreinsum saman - tökum þátt og tínum rusl sem eru þáttur í evrópskum hreinsunardögum. 

Reykjavíkurborg vinnur nú að því að hreinsa og fegra borgina og hafa borgarbúar, íbúasamtök, félagasamtök, sjálfboðaliðar, fyrirtæki og stofnanir einnig tekið saman höndum og hreinsað í sínum nánasta umhverfi. Eins er sjálfboðaliðastarfið ómetanlegt í alla staði. 

Reykjavíkurborg leggur nú sérstaka áhersla á dagana 23.-28. apríl að þessu sinni og helgina 27.-28. apríl verða þrjár hverfastöðvar Reykjavíkurborgar opnar, á Njarðargötu, Stórhöfða og í Jafnaseli. Einnig verða pallbílar á ferðinni. Veittar eru upplýsingar og glæra ruslapokar verða afgreiddir í síma 411 8420 (Njarðagötu) og 411 8440 (Jafnaseli). Þá má fá ruslapoka í hverfastöðinni á Stórhöfða fyrir almennt rusl en ekki garðúrgang.

Einnig má nefna að Landvernd vekur athygli á plastmengun í hafi og hvetur fólk til að skipuleggja sína eigin hreinsun og taka almennt þátt í að minnka notkun einnota plastumbúða. Þá má nefna magnað starf hjá Plokk á Íslandi, Bláa hernum, Rusl í Reykjavík og hjá öðrum fyrirmyndaraðilum

Hvernig er best að bera sig að?

Íbúar mega skilja eftir rusl á völdum svæðum, sem starfsfólk hverfastöðvanna sér svo um að koma í Sorpu. Hægt er að  láta vita af uppsöfnun á rusli með því að senda inn ábendingu á ábendingarvef okkar eða skilja eftir skilaboð á facebook síðunni Hreinsum saman Eins má láta vita af ruslapokum hjá þjónustuveri Reykjavíkurborgar síma 411-1111 á virkum dögum.

Kjörið er að mæla sér mót fyrir þá sem það vilja, og velja sér opið leiksvæði og eða svæði í nágrenni. Þeir sem vilja geta fengið glæra ruslapoka á hverfastöðvum Reykjavíkurborgar á Njarðargötu, við Jafnasel og Stórhöfða um helgina eða dagana á undan. Húsfélög eru hvött til að taka saman höndum og hvetja íbúa til að taka þátt. #hreinsumsaman

Forsvarsmenn fyrirtækja eru einnig hvattir til að finna tíma fyrir starfsfólk til að tína rusl á völdum svæðum og koma ruslinu í Sorpu. Ef það finnast sprautunálar og önnur hættuleg efni í borgarlandinu eru íbúar hvattir til að láta vita af því, starfmenn hverfastöðvanna eiga réttan útbúnað til farga því með öruggum hætti.

Reykjavíkurborg veitir árlega viðurkenningar í umhverfismálum af þessu tilefni á hreinsunardögunum undir heitinu Eldhugar í umhverfismálum. Árið 2016 fengu umhverfissinnar af yngri kynslóðinni viðurkenningu borgarstjóra og árið 2017 voru það umhverfissinnar af eldri kynslóðinni sem nefnast Korpúlfar. Plokk á Íslandi fékk hana árið 2018. Hún verður veitt í fyrstu vikunni í maí. 

Tenglar:

Hreinsum saman á facebook
Ábendingavefur
Plastáskorun
Plokk á Íslandi
Evrópskir hreinsunardagar