Hreiðurstæði fyrir flórgoða í Rauðavatni

Starfsfólk garðyrkjunnar á báti á Rauðavatni að útbúa hreiðurstæði fyrir flórgoða.

Verkefni starfsfólks Reykjavíkurborgar eru mörg og mismunandi. Á meðfylgjandi myndum má sjá starfsfólk garðyrkjunnar á báti á Rauðavatni að útbúa vænleg hreiðurstæði fyrir hinn fallega fugl flórgoða.

Búnar voru til hríseyjar úr greinum sem settar voru niður á þremur stöðum í Rauðavatni þar sem áætlað er að fari ekki á þurrt þegar líður á sumarið. Vitað er til þess að þess að sambærileg verkefni hafi gefið góða raun og því var ákveðið að prófa þetta í Rauðavatni.

Ástæðan er sú að flórgoðinn vill festa hreiðrið við gróður sem stendur upp úr vatninu. Hann hefur lent í vandræðum vegna þess hve vatnið sveiflast mikið og því hefur flotið undan hreiðrinu á honum. Nú er bara að bíða og sjá hvort þetta beri árangur en flórgoðinn er fallegur fugl sem gaman er að fylgjast með. Árið 2017 var varp flórgoða staðfest við Rauðavatn í fyrsta sinn í rúmlega hundrað ár. 

Takmörkuð hundaumferð á bökkum vatnsins

Sem liður í því að stuðla að vel heppnuðu varpi flórgoðans í Rauðavatni hefur verið ákveðið að takmarka hundaumferð á bökkum vatnsins á varptímanum. Skilti um þetta verða sett upp á næstu dögum. Bannið felur í sér að hundar fari ekki út á bakkann og út í vatnið. Hundaeigendur eru vinsamlegast beðnir að virða þetta og hjálpa okkur við að vernda varpið í sumar.