Hraðari fjölgun leikskólaplássa í borginni

Skóli og frístund

leikskólabarn leikur sér úti um vetur

Reykjavíkurborg vinnur að verulegri fjölgun leikskólarýma á næstu mánuðum og misserum og stefnir að því að taka í notkun 850 ný leikskólarými í ár, en alls opna átta nýir leikskólar í borginni á þessu ári.

Endurskoðuð heildaráætlun sem stýrihópur um Brúum bilið verkefnið um uppbyggingu leikskóla lagði fyrir borgarráð í dag gerir ráð fyrir að leikskólarýmum fjölgi um allt að 1680 á næstu þremur árum.

Gert er ráð fyrir að um helmingur þeirra verði tekinn í notkun á þessu ári. Byrjað verður að taka á móti 12 mánaða börnum í leikskóla borgarinnar í haust og hefst innritun í þau pláss síðar í mars mánuði. Alls munu átta nýir leikskólar opna í borginni á þessu ári, þar af fjórir leikskólar í Ævintýraborgum.

Mikil gróska í leikskólastarfi

Reykvíkingum hefur fjölgað ört síðustu ár, og nýjar mannfjöldaspár gera ráð fyrir verulegri fjölgun barna á leikskólaaldri á komandi árum. Ný aðgerðaráætlun gerir þannig ráð fyrir ríflega tvöfalt fleiri nýjum leikskólaplássum en upprunaleg áætlun sem borgarstjórn samþykkti 18. nóvember 2018.  Brúum bilið stýrihópurinn hefur unnið að því að brúa bilið á milli fæðingarorlofs og leikskóla, en fjölmargt starfsfólk borgarinnar hefur komið að hugmyndavinnu og framkvæmdum tengdum þessum metnaðarfullu áformum.

Endurskoðuð aðgerðaráætlun verkefnisins felur eftirfarandi í sér:

  • Í stað fimm nýrra leikskóla verða þeir alls tíu, eða Kirkjusandur, Miðborg,  Vogabyggð, Völvufell, Brákarborg/Kleppsvegur, Bríetartún, Safamýri, Ármúla (Múlaborg), Skerjafjörður, og Dalskóli.
  • Til viðbótar verða opnaðir fjórir nýjir leikskólar, svokallaðar Ævintýraborgir, við Eggertsgötu, Nauthólsveg, Vogabyggð og Vörðuskóla. Að auki verða allt að 3 leikskólarútur teknar í notkun sem færanlegar leikskólaeiningar.
  • Í stað viðbygginga og breytinga við fimm leikskóla verða þær við sex skóla, eða Funaborg, Laugasól, Hof, Kvistaborg, Sæborg og Seljakot.
  • Í stað nýrra leikskóladeilda í færanlegu húsnæði við fjóra leikskóla verða þær við sjö til átta skóla, eða við Gullborg, Hagaborg, Hof, Jöklaborg, Kvistaborg, Maríuborg, Seljakot og að líkindum við leikskóla í Breiðholti þar sem fýsileikakönnun stendur yfir.
  • Í stað 166 nýrra plássa í sjálfstætt reknum leikskólum verði þau að lágmarki um 220, svo framarlega sem allir samningar ganga eftir.

Samhliða þeirri fjölgun leikskólaplássa sem þegar eru komin til framkvæmdar hefur verið lögð mikil áhersla á að bæta starfsumhverfi leikskóla með fjölmörgum aðgerðum á undanförnum þremur árum s.s. að fjölga starfsfólki á elstu deildum, stækka rými barna og starfsfólks, fjölga undirbúningstímum, setja aukið fjármagn í faglegt starf og liðsheildarvinnu, fjölga námsleyfum o.s.frv.  Alls hefur verið varið rúmlega 4 milljörðum króna í þessar aðgerðir sem hafa haft það að markmiði að gera leikskólana í borginni að eftirsóknarverðari vinnustöðum.