Horft til framtíðar í menntamálum

Skóli og frístund

""

Meirihluti skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar hefur samþykkt að stofna framtíðarhóp í menntamálum sem leggi grunn að nýrri aðgerðaáætlun fyrir menntastefnu Reykjavíkurborgar á tímabilinu  2022-2024.

Framtíðarhópnum verður falið að fjalla um helstu sóknarfæri, álitamál og umbótaverkefni í skóla- og frístundastarfi borgarinnar til náinnar framtíðar.

Hann verður skipaður fulltrúum skóla- og frístundasviðs og fulltrúum hagsmunaaðila í skólasamfélaginu, s.s. barna og unglinga, foreldra, kennara og annars starfsfólks, stjórnenda, fræðasamfélagsins, aðila vinnumarkaðarins og kjörinna fulltrúa allra flokka í skóla- og frístundaráði.

Eitt af verkefnum framtíðarhóps verður að leggja mat á hvernig til hefur tekist að innleiða menntastefnu Reykjavíkurborgar, Látum draumana rætast, og áforma næstu skref . Þá er hópnum  ætlað að tryggja að áherslur innleiðingar og aðgerðaráætlun verði samofin „Græna planinu“ sem nú er í mótun fyrir Reykjavíkurborg sem og þeirri gerjun sem átt hefur sér stað í menntamálum jafnt hérlendis sem erlendis á liðnum misserum.

Gert er ráð fyrir að framtíðarhópurinn skili niðurstöðum sínum eigi síðar en í nóvember 2021.

Menntastefna Reykjavíkurborgar 2018-2030 var unnin í viðtæku samráði við skólasamfélagið í Reykjavík og komu nærri 10.000 manns að mótun hennar, börn og ungmenni, foreldrar, kennarar, stjórnendur og annað starfsfólk í skóla- og frístundastarfinu. Auk þess lögðu innlendir og erlendir sérfræðingar sinn skerf til þeirra stefnumiða sem unnið er að.

Fyrsta áfanga í innleiðingu menntastefnunnar er að ljúka og kemur það í hlut framtíðarhóps að ákveða næstu skref, ekki síst í tengslum við þær áskoranir sem blasa við vegna Covid-19, efnahagslegra og umhverfislegra áskorana og stafrænnar tækni, eins og segir í greinargerð með tillögu meirihlutans.

Sjá tillögu og greinargerð um stofnun framtíðarhóps í menntamálum.