Hlutu styrk til að auka gæði kennslu

Skóli og frístund

Hlutu styrk úr Menntavísindasjóði 2023

Rannsóknarverkefni sem lítur að því að vinna að valdeflingu kennara til að að auka gæði í kennslu var eitt af sex verkefnum sem hlaut styrk úr Menntarannsóknarsjóði 2023. Skóla- og frístundasvið Reykjavíkurborgar tekur þátt í rannsóknarverkefninu með Háskóla Íslands. Styrkurinn hljóðar upp á 29,4 milljónir króna og er verkefnið til tveggja ára.

Greina mögulegar umbætur í kennslu

Rannsóknarverkefnið snýr að sjálfbæri þróun kennara til að auka gæði náms í íslensku og raungreinum með aðstoð myndbandsupptöku í kennslustundum. Nýjasta þekking á gæðakennslu verður nýtt í starfstengdu faglegu námi þar sem náið samstarf verður á milli kennara og rannsakenda og myndað verður lærdómssamfélag kennara. Gögnum verður safnað með myndbandsupptökum til að greina mögulegar umbætur í kennslu og með viðtölum við kennara. Eins verða spurningalistar lagðir fyrir nemendur til að greina breytingar á þátttöku, athygli og viðhorfum til kennslunnar. Rannsóknin er nátengd norrænu öndvegissetri um gæði í kennslu (QUINT) sem veitir faglegan og tæknilegan stuðning við rannsóknina og aðgang að mikilvægum gagnagrunnum. Rannsóknin er sjálfbær og mun ný þekking og hæfni kennaranna í þátttökuskólunum nýtast við áframhaldandi þróun kennsluaðferða.

Verkefnastjóri rannsóknarinnar er Anna Kristín Sigurðardóttir prófessor á Menntavísindasviði Háskóla Íslands og eru þátttakendur í verkefninu fulltrúar háskólans ásamt tveimur verkefnisstjórum frá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, þeim Ólöfu Kristínu Sívertsen og Sigrúnu Hörpu Magnúsdóttur.

Lesa má um rannsóknarverkefnið „Sjálfbær starfsþróun kennara til að auka gæði náms og kennslu í íslensku og raungreinum með aðstoð myndbandsupptöku í kennslustundum“ á heimasíðu Mennta- og barnamálaráðuneytis, ásamt hinum verkefnunum sem hlutu styrk á vef mennta- og barnamálaráðuneytisins.

Fleiri verkefni sem skóla- og frístundasvið er hluti af fengu styrk

Skóla- og frístundasvið Reykjavíkur er beinn þátttakandi í fjórum verkefnum af sex sem fengu styrk frá Menntarannsóknarsjóði. Hin verkefnin eru eftirfarandi:

  • Að tala og læra íslensku í skólum - 30,9 milljónir króna.
  • Farsældarlögin í þremur sveitarfélögum: Innleiðing, framkvæmd og samsköpun þekkingar þvert á landamæri fagstétta, skólastiga og frístundastarfs – 31,2 milljónir króna.
  • LANIS Skimunarlisti – 23,6 milljónir króna.

Á mynd með fréttinni eru, frá vinstri: Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra, Helga Birgisdóttir, lektor HÍ, Ólöf Kristín Sívertsen frá skóla- og frístundasviði, Anna Kristín Sigurðardóttir, prófessor HÍ, Sigrún Harpa Magnúsdóttir frá skóla- og frístundasviði, Berglind Gísladóttir, lektor HÍ, Svava Pétursdóttir, lektor HÍ, Fríða Bjarney Jónsdóttir frá skóla- og frístundasviði.