Hjúkrunarheimili Hrafnistu vígt á Sléttuvegi

""

Í dag var nýtt hjúkrunarheimili fyrir 99 íbúa vígt við Sléttuveg í Fossvogi að viðstöddu fjölmenni. Þar á meðal borgarstjóra, Degi B. Eggertssyni, heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, og Hálfdani Henrýssyni, formanni Sjómannadagsráðs höfuðborgarsvæðisins.

Heimilið er að mestu í eigu ríkissjóðs en Reykjavíkurborg á 15%. Á heimilinu, sem er hið áttunda sem Hrafnista starfrækir á suðvesturhorni landsins og verða þar um 100 stöðugildi. Með opnun hjúkrunarheimilisins verður kærkomin fjölgun hjúkrunarrýma að veruleika. Starfsemi í húsinu er þegar hafin og fyrstu fjórir íbúarnir eru fluttir inn og í lok næstu viku verða þeir orðnir um 30 talsins.

Vígsla hjúkrunarheimilisins markar fyrsta áfanga verkefnisins við Sléttuveg, en aðrar einingar eru þjónustumiðstöð Sléttunnar sem tekur til starfa í áföngum frá og með apríl nk. og síðan hefst útleiga 60 nýrra leiguíbúða Naustavarar, dótturfélags Sjómannadagsráðs, á komandi sumri í nýrri samtengdri byggingu.

Á Sléttuvegi er lögð höfuðáhersla á samnýtingu húsnæðis til að geta boðið meiri og betri aðstöðu og þjónustu á sama stað. Húsin samnýta t.d. aðalanddyri, upplýsingatorg og móttöku, verslun, veitingasal, fjölnotasal, virkniþjálfun og heilsueflingu, dagdvöl, vörumóttöku, tæknirými, geymslur, búningsherbergi, aðstöðu húsvarða og fl. Þar að auki verða sjúkraþjálfun, matarþjónusta, kaffihús, fótsnyrting, hárgreiðsla og fleira í boði í húsnæði Sléttunnar. Með samnýtingu hefur tekist að spara bæði fjármagn og fermetra án þess að það komi fram á gæðum eða þjónustu.

Nýja hjúkrunarheimilið er 6.435 fermetrar að stærð og samanstendur af níu 11 manna deildum og eru átta deildanna samliggjandi til að auðvelda samstarf og samnýtingu starfsfólks milli deilda.Í hverju herbergi er sér baðherbergi og pláss fyrir sófa og sjónvarp. Þá eru öll herbergi búin loftlyftubúnaði svo unnt sé að flytja rúmliggjandi einstaklinga til innan herbergisins, s.s. til og frá baðherbergi íbúðarinnar. Þráðlausar tengingar eru í öllum herbergjum sem og öryggiskerfi í byggingunum sem einnig eru tengd þráðlausu neti. Hjá Hrafnistu er orðin til áratugareynsla í að veita góða umönnun og þjónustu við aldraða.