No translated content text
„Ferðavenjukönnun 2019 sýnir okkur að þróunin er í rétta átt samkvæmt markmiði sveitarfélaganna og ríkisins um aukið hlutfall hagkvæmra og vistvænna ferðamáta. Það er mjög jákvætt," segir Þorsteinn Rúnar Hermannsson samgöngustjóri Reykjavíkurborgar.
Samgönguvenjur hafa breyst hratt undanfarin ár í Reykjavík. Árið 2002 notuðu fáir hjól til samgangna en núna eru um 7% ferða í borginni farnar á hjóli. Hlutdeild strætó eykst um helming milli kannana eða úr 4% í 6%. Þá fara Reykjavíkingar 16% ferða sinna gangandi. Notkun einkabíls minnkar niður í 70% allra ferða. Þetta kemur fram í nýrri könnun um ferðavenjur Íslendinga.
„Breytingar hafa verið mismiklar milli hverfa og svæða innan borgarinnar, mikil tækifæri eru til breytinga og árangurinn farinn að koma í ljós. Við þurfum að halda áfram í þessa átt og stíga stór skref næstu árin til að bæta samgöngur og lífsgæði í borginni,“ segir Þorsteinn Rúnar.
Hlutdeild akandi minnkar
Ferðir Reykvíkinga eru hér til skoðunar en könnunin var gerð í október og nóvember 2019. Þátttökuhlutfall var 41,3% en 8148 íbúar í Reykjavík á aldrinum 6-80 ára voru handahófsvaldir úr þjóðskrá eða úr Viðhorfahópi Gallup. Í heildina fyrir höfuðborgarsvæðið fækkar akandi ferðum en hlutdeild vistvænni samgöngumáta eykst.
Segja má að daglegar ferðir íbúa, hafa ekki mælst færri frá því mælingar hófust. Þær voru 4,3 að meðaltali á höfuðborgarsvæðinu árið 2011 en mældust 3,8 nú. Það dregur almennt úr notkun einkabílsins á höfuðborgarsvæðinu. Fækkun daglegra ferða þýðir að íbúar sækja í færri áfangastaði dags daglega. Einföldun á daglegum ferðum skapar tækifæri til að fjölga notendum vistvænna samgöngumáta.
Aðstæður til hjólreiða stórbatnað í Reykjavík
Viðsnúningur hefur orðið á undanförnum árum í hjólreiðum þar sem sífellt fleiri Reykvíkingar kjósa þennan ferðamáta. Ástæðan er meðal annars falin í metnaðarfullu átaki borgaryfirvalda í hjólastígagerð og viðhaldi þeirra yfir vetrartímann.
Hlutdeild gangandi/hjólandi er mest í eldri hverfum þar sem þéttleiki byggðar er yfir meðallagi og aðgengi að þjónustu gott. Almenningssamgöngurnar eru í kröftugum vexti en hlutdeild þeirra í ferðum borgarbúa eykst um helming. Fer úr 4% í 6%. Íbúar í Miðborg og Túnum fara 35% ferða sinna gangandi og hjólandi á þessum árstíma samkvæmt könnuninni.
Aldrei fleiri í strætó heldur en núna
Hlutdeild almenningssamgangna í fimm borgarhlutum af átta mælist nú 7% og hefur aldrei mælst hærri. Þá er almenn strætónotkun að aukast enda fækkar þeim sem aldrei hafa eða nota nær aldrei strætó úr 62% frá síðustu könnun (árið 2017) í 54%. Fram kemur einnig að 15% eiga strætókort og færri en áður nota aldrei almenningssamgöngur en námsmenn og fólk í þjónustu- og hlutastörfum nota þjónustu Strætó hlutfallslega mest.
Hlutdeild hjólandi í Reykjavík verður að teljast góð, sérstaklega ef litið til þess að framkvæmdartími könnunarinnar er utan sumars eða frá 9. október - 24. nóvember í Reykjavík. Laugardalurinn sýnir jákvæðustu breytinguna á milli kannanna varðandi virka ferðamáta (fótgangandi, hjólandi og með strætó) af hverfum borgarinnar. 3% fleiri hjóla, 3% fleiri taka strætó og 9% færri ferðir mælast með bíl meðal íbúa.
Sérstaklega var spurt um umhverfisvitund og samgöngur. Í ljós kom að 70% Reykvíkingar hugsa mikið um hvað þeir geti gert til að draga úr þeim áhrifum sem þeir hafi á loftslagið/umhverfið.
Hvernig fórstu/fór barnið þitt í ferðina í dag?
Stóra fréttin er fjölgun farþega með strætó í 6% og áframhaldandi vinsældir hjólreiða eða 7%. Keyrandi voru svo 57% og 13% sem farþegar í bíl en 2% með öðrum hætti. 13% svarenda hjóla árið um hring.
Áhugavert er að skoða skiptinguna milli hverfa í Reykjavík. Íbúar í Múlum og Sundum, Laugardal, Vesturbæ og Hlíðum eru gjarnan á hjóli ásamt Högum og Melum.
Ef virkir ferðamátar eru lagðir saman þá eru það Vesturbæingar og íbúar í Túnunum sem eru helst í strætó, á hjóli eða gangandi. Miðborgarbúar fara fæstar ferðir á einkabíl en Grafarvogs- og Grafarholtsbúar flestar.
Niðurstöður sýna meðal annars hversu mikilvægt það er að skapa gönguvæna borg og er hvetjandi til að efla þjónustu í nærumhverfi svo fleiri hafi kost á því að ganga og hjóla.
Borgarumhverfið orðið vænna fyrir virkar samgöngur
„Sterkt höfuðborgarsvæði keppir við erlend borgarsvæði um ungt fólk og annað fólk sem kýs að búa og starfa í borgarumhverfi, með þeim gæðum sem þar bjóðast,“ segir í minnisblaði Jóns Kjartans Ágústssonar svæðisskipulagsstjóra um könnunina í heild segir og að fækkun daglegra ferða þýði að íbúar fari á færri áfangastaði dags daglega. „Einföldun á daglegum ferðum skapar tækifæri til að fjölga notendum vistvænna samgöngumáta. Hægt er að draga ýmsar ályktanir út frá þessum breytingum. Íbúðum fyrir stúdenta hefur fjölgað áþreifanlega síðustu 2 ár og hefur fjölgunin einkum átt sér stað við Háskóla Íslands og Háskólann í Reykjavík. Fjölgun hlutfalls gangandi vegfarenda úr 13% í 21% styður við slíka ályktun.“
Tenglar