Hjólin taka að snúast í Atvinnu- og virknimiðlun og Virknihúsi

Covid-19 Velferð

""

Ráðið hefur verið í stöður stjórnenda í Atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar annars vegar og Virknihúsi hins vegar. Í gegnum Atvinnu- og virknimiðlun verður öllum virkni- og vinnuaðmarkaðsgerðum næstu missera komið í framkvæmd. Í Virknihúsi verður haldið utan um öll virkniúrræði velferðarsviðs.

Atvinnu- og virknimiðlun Reykjavíkurborgar tekur formlega til starfa 1. júní næstkomandi. Undanfarna mánuði hefur verið unnið markvisst með virkni og atvinnumiðlun í störf hjá Reykjavíkurborg og verður tilkoma miðlunarinnar til þess að leggja enn meiri áherslu á þá vinnu. Stjórnandi hennar verður Svanhildur Jónsdóttir verkfræðingur. Hún er með B.Sc. gráðu í byggingaverkfræði og M.Sc. gráðu í samgönguverkfræði. Síðastliðinn áratug hefur hún starfað hjá VSÓ Ráðgjöf ehf., meðal annars sviðsstjóri samgöngusviðs, auk þess sem hún er í framkvæmdastjórn félagsins. 

Í Atvinnu- og  virknimiðlun Reykjavíkurborgar verður virkni- og vinnuaðgerðum Reykjavíkurborgar komið í framkvæmd í áföngum, eftir því hvernig staða á vinnumarkaði þróast á tímabilinu 2021–2022. Annars vegar er um að ræða vinnumiðlun á vegum mannauðs- og starfsumhverfissviðs og hins vegar stuðnings- og virkniúrræði á vegum velferðarsviðs. Með þessu tekur Reykjavíkurborg þátt í átaksverkefninu „Hefjum störf“ en í því felst að það eigi að skapa 7.000 störf í samfélaginu. Í fyrsta áfanga verða sköpuð störf og stuðningsúrræði fyrir atvinnulausa einstaklinga með bótarétt og vinnufæra einstaklinga sem eiga ekki rétt á atvinnuleysisbótum og fá fjárhagsaðstoð til framfærslu. Áætlað er að miðlunin muni í fyrsta áfanga skapa um 200 störf, meðal annars í samstarfi við Vinnumálastofnun. 

„Það er spennandi er að vera partur af því mikilvæga verkefni í íslensku samfélagi, að virkja fólk sem hefur misst vinnuna og brúa bilið þar til atvinnulífið fer almennilega af stað aftur,“ segir Svanhildur. „Það er mikilvægt að Reykjavíkurborg sýni gott fordæmi og taki þátt í Hefjum störf-verkefninu, í góðu samstarfi við ýmis félagasamtök. Vonandi verður fordæmi Reykjavíkurborgar til þess að enn fleiri taki þátt, því það skilar mestum árangri fyrir samfélagið allt. Við erum með háleit markmið um að skapa fjölda tímabundinna starfa og um leið halda vel utan um fólkið sem fær störfin, svo þessi tími styrki það og auki möguleika þess í framtíðinni. Ég hlakka mikið til að taka þátt í þessu, auk þess að kynnast borginni betur og nýju samstarfsfólki.“

Fleiri sérfræðingar ráðnir til starfa

Þá hefur Guðlaug Jóna Hilmisdóttir félagsráðgjafi verið ráðin teymisstjóri stuðnings- og virkniúrræða í Atvinnu- og virknimiðluninni. Hlutverk hennar verður að aðstoða einstaklinga við að komast sem fyrst í störf þegar sótt er um framfærslu til sveitarfélagsins og veita þeim viðeigandi stuðning. Guðlaug hefur yfirgripsmikla reynslu úr störfum að velferðarmálum víðs vegar um land. Síðastliðið ár hefur hún starfað hjá Reykjavíkurborg sem félagsráðgjafi í rafrænu þjónustuteymi en einnig sinnt vinnumarkaðsúrræðum fyrir notendur fjárhagsaðstoðar.  

Auk Guðlaugar hafa þau Gunnhildur Hekla Jóhannsdóttir verkefnastjóri, Elín M. Erlingsdóttir iðjuþjálfi, Gunnar Þorsteinsson, tómstunda- og félagsmálafræðingur og Ólöf Sjöfn Júlíusdóttir, sem er með B.A.-gráðu í félagsráðgjöf, verið ráðin í störf virkniráðgjafa. Sérfræðingar í atvinnumiðlun eru þær Guðbjörg Huld Símonardóttir og Þóra Lind Sigurðardóttir sem báðar eru með meistarapróf í mannauðsstjórnun. Þau bætast í hóp öflugra starfsmanna sem sinna málaflokknum. 

Virknihús tekur til starfa á næstu vikum 

Á næstu vikum tekur jafnframt til starfa Virknihús, þar sem haldið verður utan um öll virkniúrræði velferðarsviðs með heildstæðri, einstaklingsmiðaðri nálgun og auknu samstarfi við þriðja geirann. Núverandi virknihúrræði velferðarsviðs eru Karlasmiðjan, Kvennasmiðjan, Grettistak, Tinna og IPS – einstaklingsbundin starfsþjálfun. Með tilkomu Virknihúss verður hægt að auka val og sveigjanleika námskeiðaframboða og þróa verkefni í takt við þarfir notendahóps velferðarsviðs og samfélagsins hverju sinni.

Þóra Kemp hefur verið ráðin sem teymisstjóri Virknihúss. Þóra er félagsráðgjafi, er með diplómagráðu í opinberri stjórnsýslu og er að ljúka meistaragráðu í forystu og stjórnun. Hún hefur yfirgripsmikla þekkingu og reynslu af velferðarþjónustu og stjórnun innan Reykjavíkurborgar ásamt virkniverkefnum á vegum sviðsins. Hún er sannfærð um að Virknihús eigi eftir að nýtast notendum þjónustunnar vel. „Virkniúrræðin sem við erum með eru búin að festa sig vel í sessi og nú held ég að sé einmitt rétti tíminn fyrir þessar breytingar, til að setja öll púslin saman í eitt púsl. Það er mikill mannauður innan þessara úrræða og það verður gott að geta nýtt hann þvert á þau,“ segir Þóra. Með því verði bæði gæði þjónustunnar og skilvirkni hennar bætt.