Hjólastígar gerðir fyrir 1,5 milljarð króna

Samgöngur Umhverfi

""

Reykjavíkurborg mun leggja nýja hjóla- og göngustíga víða um borgina á næstu misserum samkvæmt hjólreiðaáætlun og samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.

Borgarráð hefur heimilað umhverfis- og skipulagssviði að bjóða út framkvæmdir við gerð hjólastíga. Áætlaður heildarkostnaður við stígagerðina er 1,5 milljarður króna en meðal annars er um að ræða sérstaka stíga fyrir hjólreiðar sem aðgreindir eru frá umferð gangandi og akandi þar sem því verður við komið. Framkvæmdir verða í ár en munu teygja sig yfir á árið 2022. Við malbikun stíganna er notast við endurunnið malbik í samræmi við umhverfisstefnu borgarinnar.

Um er að ræða tvenns konar verkefni, annars vegar verkefni sem ákveðin eru í hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar og hins vegar verkefni sem heyra undir samgöngusáttmálann sem ríkið og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu gerðu með sér.

Verkefni hjólreiðaáætlunar eru:

  • Snorrabraut – Hverfisgata- Sæbraut gatnamót við Borgartún
  • Borgartún – Snorrabraut að Katrínartúni
  • Sörlaskjól – Faxaskjól
  • Háaleitisbraut – Bústaðavegur að Fossvogsstíg
  • Álmgerði – Hæðargarður lokafrágangur
  • Elliðaárdalur – Rafveituheimili að Bíldshöfða
  •  Þverársel – Stígur fyrir ofan ÍR

Verkefni sem heyra undir samgöngusáttmálann

Verkefni sem unnin eru samkvæmt samgöngusáttmálanum eru mikilvægar tengingar við Bústaðaveg við veitingastaðinn Sprengisand sem tengja stíganetið í Elliðaárdal við stíga í Fossvogsdal. Þá stendur til rýmka til fyrir gangandi og hjólandi á núverandi brú Bústaðavegar yfir Kringlumýrarbraut. Einnig verður lagður stígur í Elliðaárdal frá Höfðabakka að Vatnsveitubrú.

Aðrir stígar eru:

  • Kjalarnes við Hringveg 1 fyrsti áfangi.
  • Elliðaárdalur stígur í stað hitaveitustokks
  • Svarthöfði – tenging við Stórhöfða
  • Gufunes - tenging við Borgarveg
  • Gufunes - lokakafli strandstígs fyrir höfðann í Grafarvogi
  • Rauðavatnsstígur lokakafli

Hjólastíganetið þéttist á hverju ári

Hjólastíganetið í Reykjavík þéttist með hverju árinu sem líður og er í samræmi við þá stefnu borgarinnar að efla vistvæna ferðamáta. Nýlega voru sett upp skilti á stærri áningarstöðum með kortum sem auðvelda hjólandi vegfarendum í borginni að finna réttar leiðir og tengingar eftir stofnleiðum hjólastíga. Eftir því sem hjólastíganetið verður betra fjölgar þessum áningarstöðum og þeim sem nýta hjólið sem farartæki í borginni. Erlendar rannsóknir sýna að góðir innviðir fyrir hjól auka hjólreiðar í borgum. Aukin hlutdeild hjólreiða í samgöngum er hagkvæm á þann hátt að hún sparar eldsneyti, hefur góð áhrif á umhverfið, (enginn útblástur), og bætir lýðheilsu og lífsgæði og skapar þannig betri borg.

Heildarkostnaður vegna þessara verkefna er 1,5 milljarður króna en þar af er kostnaður Reykjavíkurborgar áætlaður um 920 milljónir króna. Reykjavíkurborg setur á hverju ári 500 milljónir í hjólastíga samkvæmt fjárhagsáætlun. Í ár er þetta fjármagn aukið verulega vegna Græna plansins sem er viðspyrnuáætlun Reykjavíkurborgar vegna COVID-19 og einnig vegna samgöngusáttmála ríkis og sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu.