Hjólar alltaf í vinnuna

Íþróttir og útivist Mannlíf

""

Kristinn Jón Eysteinsson er verkefnisstjóri yfir hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar og hljóðvistarmálum vegna umferðar. Hann er einbeittur aðdáandi reiðhjólsins sem samgöngumáta og hjólar í vinnuna allan ársins hring hvernig sem viðrar.

„Fyrir fimm árum var ég oftast með bílinn á heimilinu. Svo fór ég að hjóla og þá var konan með bílinn til helmings á móti mér og ég hjólaði hina dagana. Fyrir þremur árum fékk ég mér nýtt æðislegt cyclocross hjól frá CUBE og borgaði hluta til út en nýtti samgöngustyrkinn minn frá borginni til að greiða niður afborganir. Það tók eitt og hálft ár og ég hef hjólað í vinnuna síðan.

Ég hjóla um sex til átta kílómetra á dag, til og frá vinnu. Eiginlega bý ég á frábærum stað til að hjóla því ég rúlla eiginlega hingað niður eftir frá Stóragerði á Höfðatorg á um sjö mínútum. Það er aðeins þyngra undir fótinn á heimleiðinni og þá er ég um tíu til fimmtán mínútur. Veturinn var ótrúlega góður. Ef maður setur nagladekkin undir hjólið eru allir vegir færir hvernig sem veður og færð er. Þau breyta öllu upp á vetrarhjólreiðarnar að gera. Mér finnst mjög hressandi að byrja daginn með hjólatúr, fá súrefni í kroppinn. Stilludagar með frosti eru eiginlega í uppáhaldi. Þá fær maður kalt loftið framan í sig og kemur rjóður í kinnum til vinnu.“

Spennandi þróun í hjólreiðum

Kristinn Jón ólst upp í Reykjavík en svo fluttist fjölskyldan í Garðabæ og gekk hann í grunnskóla þar. Hann er menntaður tæknifræðingur en bætti síðan við sig meistaragráðu í skipulagsfræðum í Háskólanum í Reykjavík á árunum 2010 – 2013. Hann hefur unnið á samgöngudeild umhverfis- og skipulagssviðs borgarinnar frá árinu 2005.

„Sú þróun sem við erum að horfa á núna í hjólreiðunum er mjög spennandi. Það hefur orðið sprenging í hjólreiðum og fjölgun rafmagnshjóla í borginni er með ólíkindum. Við teljum okkur eiga þátt í því að hafa hrint í gang þeirri fjölgun sem orðið hefur með verkefni sem ég hafði umsjón með þar sem við lánuðum rafhjól til borgarbúa árin 2018 og 2019. Hver hópur fékk hjól lánað til reynslu í fimm vikur. Verkefnið naut mikilla vinsælda, fólk var mjög áhugasamt um að prófa og ég veit um marga sem hreinlega keyptu hjólin að lánstíma loknum. Þetta var unnið með ráðgjafastofunni Trafkon30 sem sá um framkvæmd og úrvinnslu verkefnisins. Nú stendur yfir verkefni með starfsmönnum skóla og frístundasviðs með svipað verkefni þar sem  öllu starfsfólki skóla- og frístundasviðs borgarinnar gafst kostur á að prófa að hafa rafhjól í fimm vikur. Markmiðið var að höfða til stærri hóps kvenna þar sem þær virðast hjóla síður en karlar. Við höfum verið með 25 hjól í útláni á hverjum tíma og er síðasti hópurinn í yfirstandandi verkefni núna með hjól.  Segja má að verkefnið hafi komið af stað snjóboltaáhrifum þar sem vöxtur hefur orðið gríðarlegur á síðustu 2-3 árum í rafhjólum.  

Fleira fólk hjólar með tilkomu rafhjólanna

Fyrst var þessi mýta að rafmagnshjólin gerðu ekki eins mikið fyrir líkamlega heilsu okkar því það væri svo auðvelt að hjóla á þeim. Staðreyndin er hins vegar sú að bæði gefur þetta fleira fólki við lakari heilsu möguleika á því að hjóla sér til heilsubótar og svo ferðast fólk gjarnan lengri vegalengdir á  óháð veðri og hæðarmunar í landi. Það fær því meiri útiveru, meiri hreyfingu og meira súrefni í kroppinn. Það eykur hreyfigetuna og bætir heilsuna. Ég veit um fólk sem var ónýtt í hnjánum en er nú orðið gott af því að nota rafhjól til og frá vinnu. Það hefur ekki spillt fyrir að áhugafólk um rafhjólavæðingu hefur átt frábæran talsmann –  Ómar Ragnarsson, sem hefur verið óþreytandi í því að mæra þau.

Á síðustu árum höfum við komið upp mörgum teljurum á stofnstígunum okkar. Við höfum mælt öran vöxt. Hjólreiðar almennings tóku stökk í COVID-19 faraldrinum og hafa síðan haldið áfram að vaxa með góðum stíganda. Með hverju árinu verður auðveldara að hjóla í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu því við erum alltaf að bæta stíganetið og aðra aðstöðu fyrir hjólreiðafólk. Eftir því sem hjólastígum fjölgar bætist í þann hóp sem nýtir sér reiðhjólið sem samgöngumáta.

 Nú er ný hjólreiðaáætlun fyrir Reykjavík í vinnslu. Við gerðum könnun meðal hagsmunaaðila og spurðum hvað þeim þætti mikilvægast. Í stuttu máli var það afgerandi niðurstaða að hjólafólk vill sjá aðskilnað gangandi og hjólandi á stofnstíganetinu. Áskorunin sem við stöndum frammi fyrir núna er hvernig við gerum þetta inni í hverfunum. Svona stígar taka nefnilega pláss í göturýminu. Þegar hjólastíg er bætt við þar sem pláss er af skornum skammti  er það oftar en ekki á kostnað bílaumferðar.

Flýtum okkur hægar og njótum meira

Nú hefur verið samþykkt plan um að lækka hámarkshraða í götum borgarinnar. Sá mikli hraði sem er á öllu í okkar samfélagi tel ég að geti að hluta til verið í takt við þann mikla hraða sem við öll verðum vör við með bílaumferðinni. Vonandi mun samfélagið finna sinn rétta takt þegar búið verður að lækka hámarkshraða, við flýtum okkur hægar og njótum meira. Lækkaður hámarkshraði í borginni mun koma gangandi og hjólandi fólki í borginni til góðs og mjög líklega verða til þess að fjölga enn frekar í hópi þeirra.

Kristinn Jón hefur einnig umsjón með hljóðvistarmálum vegna umferðar í borginni. Hljóðmanir og veggir ásamt styrkjum til kaupa á hljóðvistargleri fyrir íbúðir við miklar umferðargötur eru á hans könnu. Hann hafði m.a. veg og vanda af hljóðveggnum við Stigahlíðina sem á að verða þakinn gróðri en sá veggur virkar vel og þykir mikil prýði í borgarlandinu.

„Ég hef verið svo lánsamur með mín verkefni í  störfum fyrir borgina að almennt er góð samstaða á hinu pólitíska sviði, þvert á flokka, um þær framkvæmdir sem ég hef haft umsjón með og ánægja borgarbúa sömuleiðis.

Það er eiginlega samnefnari fyrir hjólastíganetið í borginni að það er verkefni sem allir styðja og vilja og er því algjörlega ópólitískt.

Nýir stígar og tengingar í sumar

Við getum alltaf gert meira og betur og lagt lengri stíga. Við teljum að við séum að gera eins mikið og við getum á hverjum tíma miðað við þann mannafla sem við höfum hjá borginni og getu verktaka til að koma út verkefnum við gerð hjólastíga. Við erum í raun á fullu gasi og hvergi slegið af.

Stærsta verkefnið sem verður framkvæmt í ár er við Sprengisand. Þar erum við að tengja saman meginæðar í stofnstígakerfinu okkar; Bústaðaveg, Rauðagerði, Stjörnugróf og Elliðaárdal. Það koma ný undirgöng undir Bústaðaveg og þar í gegn fer nýr hjólastígur sem er aðskilinn frá göngustíg. Þetta verður mikil bragarbót.

Svo verður lagður um kílómetra langur stígur frá Árbæjarstíflu, alla leið upp að Árbæjarlaug, Breiðholtsmegin. Þetta er enn einn áfanginn í því að leggja aðskilda stíga upp allan Elliðaárdalinn. Þá erum við einnig með verkefni í Elliðarárdalnum þar sem stígur verður lagður frá Toppstöðinni að Bíldshöfða.

Hins vegar verður lagning hjólastíga í grónum hverfum borgarinnar mesta áskorunin í hjólreiðaáætlun næstu ára,“ segir Kristinn Jón Eysteinsson að lokum.