Hjólaleið frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar
Greinargerð vinnuhóps um uppbyggingu hjólaleiðar milli Reykjavíkur og Keflavíkurflugvallar var kynnt í umhverfis- og skipulagsráði í morgun.
Í vinnuhópnum voru fulltrúar frá Reykjavíkurborg, Samtökum sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) og Samtökum sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS). Einnig voru boðuð til þátttöku í viðræðum fulltrúar Hafnarfjarðarbæjar, Vegagerðarinnar og Kadeco. Ein aðgerð í Hjólreiðaáætlun Reykjavíkurborgar 2021-2025 var að Reykjavíkurborg tæki upp samtal við SSH, SSS auk sveitarfélaga á Vesturlandi um upppbyggingu hjólareiðaleiða.
Tilgangurinn að auka aðgengi og efla hjólreiðamenningu
Tilgangurinn er að styðja við áframhaldandi uppbyggingu stíga sem liggja að og frá höfuðborgarsvæðinu og efla hjólreiðamenningu á suðvesturhorni landsins og auka aðgengi ferðamanna sem vilja ferðast um landið og höfuðborgina á hjóli eða gangandi.
Vinnuhópurinn skoðaði aðeins leiðina milli höfuðborgarsvæðis og Keflavíkurflugvallar. Honum var falið að skoða mögulegt leiðarval, samræmdar merkingar, framtíðarvistun verkefnisins og móta sameiginlega sýn á fjármögnum. Hugmyndin var að opna á umræðu sem gæti ýtt undir að verkefnið verði að veruleika sem fyrst.
Byggir á núverandi stígum og slóðum
Búið er að leggja töluverða vinnu í undirbúning innan sveitarfélaganna hjá SSS en leiðin liggur um nokkur sveitarfélög á Suðurnesjum. Öll sveitarfélögin eru komin með tillögur um legu stíga í gegnum sitt sveitarfélag á þessari leið en hönnun er mislangt komin. Forsendur þess leiðarvals sem nú liggur fyrir byggir að mestu á núverandi stígum og slóðum sem ýmist eru gamlir malarvegir, línuvegir eða hliðarvegir.
Í greinargerð vinnuhópsins kemur fram að Vegagerðin greiði að lágmarki helming af framkvæmdakostnaði en hvert sveitarfélag þurfi að hafa frumkvæði að þátttöku Vegagerðarinnar í fjármögnuninni.
Í greinargerðinni er jafnframt bent á ályktun sem lögð var fram af svæðisskipulagsnefndum höfuðborgarsvæðisins og Suðurnesja, föstudaginn 12. maí 2023, þar sem lögð er áhersla á að ríkisstjórnin beiti sér fyrir eftirfarandi: „Skipulagt verði heildstætt göngustíga- og hjólanet um svæðin, sem tengi saman helstu atvinnu, íbúða, þjónustu- og útivistarsvæði. Lokið verði við að leggja og merkja öruggar hjólaleiðir milli Keflavíkurflugvallar og höfuðborgarsvæðisins.“
Kadeco hefur áhuga á því að taka verkefnið áfram með sveitarfélögunum og koma að samræmingu með því að aðstoða við að skipuleggja verkefnastjórn við uppbyggingu hjólaleiðar um Reykjanesið með heildarhagsmuni allra sveitarfélaganna að leiðarljósi.
Grænar samgöngur til KEF
Góðar og umhverfisvænar samgöngur milli alþjóðaflugvallarins í Keflavík og höfuðborgarsvæðisins verða einmitt ræddar á opnum fundi lykilhagaðila í Salnum í Kópavogi á morgun fimmtudaginn 12. október. Að fundinum standa Reykjavíkurborg, Innviðaráðuneytið, Kadeco, Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins og Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum.