Hjólað frá Kolding til Parísar fyrir krabbameinsveik börn | Reykjavíkurborg

Hjólað frá Kolding til Parísar fyrir krabbameinsveik börn

föstudagur, 29. júní 2018

Afrekskonur á velferðarsviði Reykjavíkur, Arna Björk Birgisdóttir, deildarstjóri á Þjónustumiðstöð Vesturbæjar, Miðborgar og Hlíða og Arna Hrönn Aradóttir, verkefnastjóri þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts, ætla að hjóla 1200 km í sumar til styrktar krabbameinssjúkum börnum.

  • Arna Hrönn Aradóttir og Arna Björk Birgisdóttir.
    Þær stöllur á Leifsstöð í morgun á leið til Kolding. Arna Hrönn Aradóttir, verkefnastjóri þjónustumiðstöðvar Árbæjar og Grafarholts og Arna Björk Birgisdóttir, deildarstjóri á Þjónustumiðstöð Vestubæjar, Miðborgar og Híða.

Þessar kraftakonur ætla ásamt 38 öðrum Íslendingum að hjóla frá Kolding í Danmörku til Parísar í Frakklandi og safna með því fé til styrktar krabbameinssjúkum börnum og fjölskyldum þeirra. Það tekur átta daga að hjóla alla leiðina.

Ferðin er farin undir heitinu Team Rynkeby og er þetta samnorrænt góðgerðarstarf. Þátttakendur þess hjóla á hverju ári til Parísar til styrktar krabbameinssjúkum börnum og fjölskyldum þeirra.

Í dag samanstendur Team Rynkeby af 1.900 hjólreiðamönnum og 450 aðstoðarmönnum sem skiptast í 48 lið frá Danmörku, Svíþjóð, Finnlandi, Noregi, Færeyjum og Íslandi.

Það verða 40 hjólreiðarmenn sem hjóla frá Íslandi og með þeim eru átta aðstoðarmenn. Söfnunarféð fer óskipt til Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna. Þátttakendur standa sjálfir undir öllum kostnaði við sína þátttöku.

Eins og áður segir tekur ferðin átta daga en hún hefst á morgun, 30. júní þar sem Team Rynkeby Ísland hjólar sem leið liggur frá Kolding til Þýskalands, Belgíu og ferðin endar svo í París þann 7. júlí næstkomandi. Alls verða haldnir 43 viðburðir í 38 bæjum í sjö löndum fyrir öll þau 48 lið Team Rynkeby sem leggja af stað á átta mismunandi mánaðardögum. Þær nöfnur hvetja alla til þess að fylgjast með ferð Íslendinganna til Parísar.

Vefsíða ferðarinnar

Facebook síða ferðarinnar