Hjólabraut verður fundinn nýr staður

Umhverfi Íþróttir og útivist

""

Hjólabraut sem koma átti fyrir í nágrenni við sparkvöll á opnu svæði við Sörlaskjól verður komið fyrir á öðrum stað. Ákvörðun um það var tekin í liðinni viku eftir andmæli íbúa.

Ekki er búið að finna brautinni annan stað en fjölmargar ábendingar hafa komið frá íbúum um staðsetningu. Brautin er einföld í uppsetningu og leggst einfaldlega á landið þar sem henni verður fundinn staður. Hún rís hæst um 1 metra frá jörðu.  Hjólabrautin fékk 400 atkvæði í kosningum íbúalýðræðisverkefnisins Hverfið mitt. Þá var gert ráð fyrir henni á lóð Grandaskóla, en á vinnslustigi þurfi að finna henni annan stað.

Á opna svæðinu við Sörlaskjól er verið að koma fyrir fjölnota hreysti- og klifurtæki, sem einnig var kosið til framkvæmda í gegnum Hverfið mitt og hlaut 627 atkvæði.  Tækið er léttbyggt, einföld samsett grind, en slík tæki eru víða við göngustíga, svo sem við Ægissíðuna. Staðsetningin var ákveðin vegna nálægðar við fjölfarna gönguleið og einnig nálægðar við sparkvöllinn sem hefur verið á opna svæðinu um áratuga skeið. Tækið verður rúma 7 metra frá akvegi og tæplega verður meiri truflun af hreystitækinu en núverandi sparkvelli, en hann er á svæði sem var mótað eftir lagningu stórrar frárennslislagnar á liðinni öld.

Vinna við jarðvegsskipti fyrir uppsetningu hreysti- og klifurtækisins var hafin og á framkvæmdastigi virkar þetta umfangsmeira en verður að verki loknu. Verkinu verður fram haldið eftir miðjan ágúst. Gengið verður frá undirlagi við hreysti- og klifurtækið í samræmi við umhverfið.

Hér má sjá þau verkefni sem íbúar í Vesturbæ kusu til framkvæmda > Hverfið mitt Vesturbær – framkvæmdir 2019    Inn á vefsíðunni má sjá hugmyndina úr hugmyndasöfnuninni, kosningatillöguna og verkhönnun. Eins og gengur og gerist geta hlutir breyst frá upphaflegu hugmyndinni til útfærðra verkteikninga.

Tengt efni: