Hjálparsamtök fá aukinn styrk

Covid-19 Velferð

""

Fjölskylduhjálp Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd fá 1,5 milljónir hvert í styrk, til að bregðast við aukinni ásókn í þjónustu þeirra að undanförnu. 

Á fundi velferðarráðs í gær var samþykkt tillaga formanns ráðsins, Heiðu Bjargar Hilmisdóttur, um að veita 4,5 milljónum króna til hjálparsamtaka sem veita efnalitlu fólki aðstoð í formi matargjafa eða annarra nauðsynja. Félögin sem fá styrk eru Fjölskylduhjálp Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd en hvert þeirra fær 1,5 milljónir króna.

Í greinargerð með tillögunni kemur fram að við úthlutun velferðarráðs úr styrkjapotti borgarsjóðs í febrúar hafi fjárhæð sem nam allt að 5% af styrkjapottinum verið haldið eftir. Það var gert í þeim tilgangi að bregðast við umsóknum utan auglýsts umsóknartímabils eða við verkefnum sem ekki væri hægt að sjá fyrir. Undanfarnir mánuðir hafi verið mjög krefjandi fyrir fólk sem á erfitt með að ná endum saman. Fjölskylduhjálp Íslands, Hjálparstarf kirkjunnar og Mæðrastyrksnefnd hafa komið þessum einstaklingum og fjölskyldum til hjálpar með matargjöfum. Ásókn í þær hefur aukist til muna og því þykir rétt að ráðstafa til þeirra styrkfjárhæðinni sem haldið var eftir fyrr á árinu.

Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður velferðarráðs, segir mikilvægt að samfélagið taki höndum saman um að hjálpast að á erfiðum tímum. „Við þurfum að komast í gegnum þetta öll saman. Margir eiga erfitt með að ná endum saman og því fannst mér rétt að styrkja þau félagasamtök nú, sem koma fólki til hjálpar með matargjöfum, til að mæta þeim aukna fjölda sem til þeirra leitar. Enginn á að vera án matar í Reykjavík.“