Hinsegin dagar settir á Gleðigötu

Umhverfi Menning og listir

""

Hinsegin dagar voru settir formlega í hádeginu í dag þegar málaður var regnbogi á Gleðigötuna sem er á Klapparstíg milli Grettisgötu og Laugavegar. 

Með því að mála regnboga á þennan hluta Klapparstígs má segja að eitt hýrasta svæði borgarinnar frá loks verðskuldaðan regnboga en hinsegin næturlíf á sér ríflega 30 ára sögu á Laugavegi 22 sem stendur á horni Laugavegs og Klapparstígs. Þetta verður þó ekki eini regnboginn í Reykjavík því varanlegur regnbogi sem samþykktur var í borgarstjórn Reykjavíkur fyrr í sumar mun einnig birtast á næstunni á neðanverðum Skólavörðustíg.

Gunnlaugur Bragi Björnsson, formaður Hinsegin daga, og Dagur B Eggertsson borgarstjóri ávörpuðu setningargesti en að því loknu hófst málningarvinnan sem gestir og gangandi töku einnig þátt í.

Hinsegin dagar standa yfir dagana 8.-17. ágúst en hátíðin fagnar 20 ára afmæli í ár auk þess sem 50 ár eru liðin frá Stonewall uppreisninni í New York. Þau uppþot eru gjarnan er sögð hafa markað upphaf sýnilegrar réttindabaráttu hinsegin fólks. Til að fagna þessum tímamótum standa Hinsegin dagar nú yfir í 10 daga og er fjöldi viðburða í boði á hverjum degi. Hátíðin nær sem fyrr hámarki með gleðigöngu og útihátíð sem fara fram laugardaginn 17. ágúst. Að þessu sinni mun gleðigangan leggja upp frá Hallgrímskirkju kl. 14, þaðan fer gangan niður Skólavörðustíg og Bankastræti og þaðan sem leið liggur um Lækjargötu, Fríkirkjuveg og Sóleyjargötu að Hljómskálagarði.

Upplýsingar um Hinsegin daga og viðburði næstu daga má finna á hinsegindagar.is