„Hér skín gleðin úr hverju andliti“

Vitatorgsbandið spilar.

Vitatorgsbandinu var í gær veitt viðurkenning fyrir að óeigingjarnt starf í gegnum árum. Bandið, sem samanstendur af fimm harmónikkuleikurum, gítarleikara, bassaleikara og trommara, hefur í tuttugu ár skemmt gestum samfélagshússins á Vitatorgi.   

Síðasta ball Vitatorgsbandsins fyrir sumarfrí var haldið í í samfélagshúsinu á Vitatorgi í gær. Að því tilefni mættu þau Þorvaldur Daníelsson og Helga Þórðardóttir, fulltrúar velferðarráðs, á ballið og veittu meðlimum bandsins þakklætisvott fyrir sitt óeigingjarna starf. Guðrún Guðjónsdóttir, talskona Vitatorgsbandsins, tók á móti blómum og sagði nokkur orð fyrir hönd bandsins. Í kjölfarið var dansað og sungið.

Dansað og sungið

Það var Sigríður Norquist sem stofnaði Vitatorgsbandið fyrir um tuttugu árum. „Hún Sigríður byrjaði hér ein að spila á harmónikku og fór svo að safna í kringum sig fólki,“ rifjar Guðrún upp. Í dag eru átta hljóðfæraleikarar í bandinu, allt eldhresst fólk komið yfir áttrætt.  

Í Vitatorgsbandinu eru nú, auk Guðrúnar, þeir Gísli Gíslason, Hjálmar Þór Jóhannesson, Valbjörn Guðjónsson og Theodór Bogason sem allir spila á harmónikku, Sigurður Guðmundsson trommuleikari, Jón Unnar bassaleikari og Eirný Ásgeirsdóttir gítarleikari. Með þeim eru svo alla jafna söngvararnir Grétar Þorsteinsson, Anna Jóhannsdóttir og Emil Hjartarson en þau leiða söng sem ballgestir taka þátt í.

Spila saman í hverri viku

Bandið segir Guðrún afar vel samstillt. Hópurinn kemur fram vikulega á Vitatorgi og æfir stundum þess á milli, en þau eru með æfingaaðstöðu í félagsmiðstöð eldri borgara í Hraunbænum. Sjálf spilar Guðrún á harmónikku en hún byrjaði að læra á hana 55 ára og hefur ekki sleppt henni síðan. „Við erum búin að spila lengi saman að það er mikil samheldni í hópnum. Við spilum helst þessi gömlu, góðu dægurlög sem okkur þykja svo góð. Ég er hræddust um að þessi lög hverfi, því það væri mikil synd,“ segir Guðrún. Þess vegna gleður það hana þegar yngri kynslóðir taka þátt í skemmtununum. „Það skín gleði út úr hverju andliti á þessum böllum,“ segir hún og hvetur öll til að koma á ball, þegar þau hefjast að nýju eftir sumarið. Öll séu þar velkomin, enda sé samfélagshúsið á Vitatorgi opið fólki á öllum aldri.

Myndir frá ballinu