Hennar kappsmál er að hafa góð áhrif á hverfisbraginn

Mannlíf Skóli og frístund

""

Anna Sif Jónsdóttir, formaður foreldrafélags Breiðholtsskóla, er Reykvíkingur ársins 2017:

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri tilkynnti í morgun við opnun Elliðaánna að Reykvíkingur ársins 2017 væri Anna Sif Jónsdóttir, formaður foreldrafélags Breiðholtsskóla. Hennar kappsmál er að hafa góð áhrif á hverfisbraginn. Þetta er í sjöunda sinn sem borgarstjóri útnefnir Reykvíking ársins en á hverju ári berast fjölmargar tilnefningar um einstaklinga sem unnið hafa ötullega í þágu nærumhverfisins í sínum hverfum.

Í tilnefningunni um Önnu Sif segir eftirfarandi: „Hún hefur á undanförnum árum verið leiðandi í foreldrastarfi í Breiðholtsskóla og samstarfi milli foreldrafélaga allra grunnskóla í Breiðholtinu.  Meðal verkefna sem unnið hefur verið ötullega að eru Fjölmenningarhátíð í neðra Breiðholti og Vorhátíð Breiðholtsskóla sem báðar eru orðnar ómissandi liður í menningu hverfisins.  Þá hafa bókagjafir til skólabókasafnins og menningartengdar uppákomur innan skólans fests í sessi í boði foreldrafélagsins. Unnið hefur verið markvisst að því að virkja unglingana í skólanum til þátttöku í viðburðum innan hans og lögð áhersla á öflugt bekkjarstarf í öllum árgöngum.  Þess utan má einnig nefna að foreldrafélagið hefur á undangengnum árum lagt áherslu á framhald framkvæmda í og við Breiðholtsskóla.“

Anna Sif er löggiltur endurskoðandi og býr í Fornastekk. Hún ólst upp í Seljahverfi og hefur búið í neðra Breiðholti síðan 2003. „Ég áttaði mig á því að ég ætti eftir að eiga barn í Breiðholtsskóla til ársins 2025 og því væri kannski ágætt að skipta sér af því hvernig þessi skóli væri,“ segir Anna Sif sem á tvö börn í skólanum í dag en hún á þrjú börn sem eru 8, 11 og 17 ára.

„Sjálfboðastarf foreldra er gríðarlega mikilvægt og ég er bara að gera það sem allir foreldrar ættu að vera að gera“ segir Anna Sif og bendir á að sjálfboðastarf foreldra sé hluti af umhverfi barna í dag, hvort sem um er að ræða innan skólastarfs, íþróttafélaga eða annarra tómstunda.  Til að byrja með var stjórn foreldrafélagsins fáliðuð  en hún hefur setið í stjórninni síðan 2007 og þar af fimm ár sem formaður.  „Þó svo ég hætti nú sennilega fljótlega sem formaður mun ég halda áfram að efla skólasamfélagið og hverfisbrag.

Nú er mjög öflugur foreldrahópur í Breiðholtsskóla sem stendur að vorhátíð skólans, fjölmenningarhátíð og jólaföndri. Stjórnin er  vel skipuð einstaklingum sem vinna vel saman en við viljum alltaf fá fleiri til liðs við okkur.

Það sem drífur mig áfram er að skapa góðar minningar fyrir börnin í hverfinu auk þess sem þátttaka foreldra í skólastarfi efli sjálfsmynd barnanna og þetta snýst jú allt um börnin.  Í svona starfi gerirst ekkert þegar maður er einn, það hefur verið ofboðslega flottur hópur í þessu félagsstarfi og margir tilbúnir að grípa boltann. Allir ganga í hlutverkin og foreldrahópurionn allur í skólanum styður við starf foreldrafélagsins og hjálpar til.  Til dæmis eru þrif og frágangur aldrei neitt vandamál, foreldrar grípa bara kústinn og hj. Starfið snýst  um að skapa góða skólamenningu og hafa jákvæð áhrif á skólabrag.

Það er mjög mikilvægt að foreldrar taki þátt í lífi barnanna sinna. Allir geta gert eitthvað, það þarf ekki að taka sæti í stjórn til þess að skipuleggja eina bíóferð fyrir bekkinn eða vinna eitt sjálfboðaverk á vorhátíð eða annars staðar. Ég myndi gjarnan vilja sjá fleiri foreldra virka í sjálfboðaliðastarfi bæði innan skólans og frístunda barna,“ segir Anna Sif.

Anna Sif er vel þekkt í hverfinu og þeir sem þekkja vel til starfa hennar segja að hún sé ofboðslega öflug og jákvæð í sínu nærsamfélagi. „Hún er ein af hverfishetjunum okkar,“ segir einn sem rætt var við vegna valsins.

Hún situr einnig í stjórn Hollvinasamtaka Elliðaárdalsins auk þess að vinna að Fjölmenningarhátíðinni í Breiðholti sem hefur verið haldin tvisvar sinnum við miklar vinsældir og góðan orðstí.

„Hér hefur orðið mikil fjölgun innflytjenda og og börn sem eiga ekki innfædda foreldra þurfa meiri stuðning en verið hefur síðustu ár. Hér í Breiðholtinu er góður hverfisbragur að flestu leyti, en við þurfum að huga betur að krökkunum sem eru að flytja til landsins, fjölmenningarsamfélag er dýrara en einsleitnin en skilar víðsýnari einstaklingum.  Það að þessi hópur sé stoltur af sér og sínu og líði vel í eigin skinni er veganesti sem þarf að vinna að.  Við foreldrar eigum að láta okkur varða um öll börn í okkar nærsamfélagi, ekki bara vera hver í sínu horni, það þarf heilt samfélag til að ala upp barn.  

Anna Sif landaði fallegum nýgengnum smálaxi í Elliðaánum í morgun kl. 7:20 en veiðar hófust af krafti þar í morgun og opnaði hún árnar ásamt Degi B. Eggertssyni borgarstjóra.