Henna tattoo, arabísk klæði og tyrkneskir búningar á Fjölmenningardaginn

Mannlíf Menning og listir

""

Fjölbreytileikanum í borginni verður fagnað í sjöunda sinn í Reykjavík laugardaginn 9. maí á árlegum fjölmenningardegi borgarinnar.  Fjölmenningardagurinn hefur öðlast sess í hugum borgarbúa enda setur hátíðin skemmtilegan blæ á borgarlífið. Hátt í 10.000 manns sóttu hátíðina í fyrra sem er met.

Borgarstjóri setur hátíðina stundvíslega kl.13.00 á Skólavörðuholti að því loknu fer skrúðgangan af stað og endar við Ráðhúsið. Fjöldi fólks hefur ár hvert tekið þátt í göngunni og ræður litagleðin ríkjum, þátttakendur klæðast fallegum þjóðbúningum hinna ýmsu landa og lúðrasveit verður í broddi fylkingar.

Þegar í Ráðhúsið kemur opnar hinn vinsæli fjölþjóðlegi markaður í Tjarnarsal þar sem gestir og gangandi geta kynnt sér menningu hinna ýmsu þjóðlanda og á boðstólum verða þjóðlegir réttir, listmunir og annar varningur. Gestir geta mátað tyrkneska búninga, arabíska búninga eða mátað hijab slæður. Tyrkneski listamaðurinn Soner Kilic kemur sérstaklega til landsins og sýnir listform þar sem málað er á vatn eða „water marbling“.  Gestir geta fengið sér Henna tattoo eða tekið þátt í skemmtilegu ferðahappdrætti Úrval-Útsýnar þar sem veglegir ferðavinningar eru í boði. Svo má fara í bíó í borgarráðsherberginu á annarri hæð þar sem sýndar verða þrjár stuttmyndir.

Í Tjarnarbíói verður boðið upp á skemmtidagskrá þar sem ýmsir listamenn koma fram. Má þar nefna glæsilegt sirkúsatriði frá Sirkús Íslands, Hljómsveit frá Stelpur Rokka! rokksumarbúðum, Marcin dansarinn sem tók þátt í Ísland got talent,  Litháíski sönghópurinn Gija, Múa Nón - víetnamískur dans, streetdans og margt fleira. 

Í Iðnó verður boðið upp á skemmtidagskrá fyrir börn og þar mun leikhópurinn Lotta flytja söngvasyrpuna sína. Þá gefst börnunum tækifæri á að fara inn í fjölþjóðlega hvelfingu „ dome“ og nemendur frá Kampi frístundamiðstöð munu bjóða þér að uppgötva hvað þar leynist. Trúðar, blöðrur, sápukúlur, andlitsmálun og fjör verður til staðar.

Þetta er aðeins brot af því sem er í boði. Sjá dagskrá Fjölmenningardagsins 2015.

Eitt er víst það ættu allir að geta fundið sér atriði við hæfi!

Reykjavíkurborg hvetur borgarbúa til að taka þátt í hátíðahöldunum og fagna fjölbreytileikanum!

Hlökkum til að sjá ykkur. Gleðilegan Fjölmenningardag!