Helgi Grímsson kveður eftir farsælt starf í stóli sviðsstjóra
Skóli og frístund Stjórnsýsla
Eftir að hafa stýrt skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar í níu ár hefur Helgi Grímsson sviðsstjóri verið kallaður til annarra verka frá og með áramótum og hefur beðist lausnar frá starfi sviðsstjóra.
Mun starfa við umbótarverkefni í mennta- og barnamálaráðuneytinu
Helgi hefur tekið að sér að stýra umbótaverkefni í mennta- og barnamálaráðuneytinu sem snýr að því að leggja grunn að auknum jöfnuði og árangri í menntun milli einstakra skóla, sveitarfélaga og landssvæða. Hann segist fullur tilhlökkunar og ánægður með að til hans hafi verið leitað þó að á sama tíma sé erfitt að kveðja góðan vinnustað og samstarfsfólk. „Ég hef aldrei unnið á eins góðum vinnustað og hjá Reykjavíkurborg,“ segir Helgi og bætir við að bæði vinnustaðir og starfsfólk hafi hins vegar gott af breytingum. Hann segir spennandi að fá tækifæri til að styrkja skóla- og frístundastarf á landinu öllu og finna leiðir til að auka gæði menntunar með því að haganýta gögn sem til eru í samstarfi við ríki, sveitarfélög og samtök kennara.
Mikilvægt að jafna stöðu skóla og landsvæða
Helga finnst mikilvægt að menntakerfið getið vaxið enn frekar og að öll sem starfa við menntun barna geti nýtt sér það sem hefur gengið vel í einstaka skólum, samstarfsverkefnum skóla og þróunarverkefnum sveitarfélaga. „Samvinna er svo mikilvæg og skilar miklu meiru en þegar hver og einn vinnur í sínu horni. Við þurfum að skoða upplýsingar um námslega stöðu barna, félagslegar aðstæður þeirra, menntun þeirra sem starfa við kennslu og frístundastarf og fjárveitingar til skólastarfs sem eru ólíkar milli sveitarfélaga. Við þurfum að finna tækifæri til umbóta og nýta það sem vel er gert og yfirfæra til annarra og vinna markvisst að því að minnka bilið á milli skóla og milli svæða,“ segir Helgi en verkefnið nær yfir breitt svið og mun snúa að menntun á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi, og í frístundastarfi.
Starf sviðsstjóra laust til umsóknar
Eftir að borgarráð samþykkti beiðni Helga um lausn frá starfi var einnig samþykkt að auglýsa starf sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs laust til umsóknar. Umsóknarfrestur er til og með 24. nóvember. Hæfnisnefnd skipa Katrín Jakobsdóttir sem jafnframt er formaður nefndarinnar, Lóa Birna Birgisdóttir, sviðsstjóri mannauðs- og starfsumhverfissviðs og Haraldur L. Haraldsson ráðgjafi. Hæfnisnefndinni er ætlað að skila niðurstöðum sínum innan fjögurra vikna frá því að umsóknarfresti lýkur.