Helga Friðriksdóttir hefur verið ráðin skrifstofustjóri íþróttaborgarinnar á menningar- og íþróttasviði Reykjavíkurborgar og hefur hún störf í haust. Starfið var auglýst til umsóknar í maí og bárust 47 umsóknir.
Helga er með meistarapróf í mannauðsstjórnun og vinnusálfræði, MBA próf frá Háskólanum í Reykjavík og B.Sc. próf í verkfræði frá Háskóla Íslands. Hún hefur margþætta starfsreynslu á sviði stjórnunar og rekstrar, stefnumótunar, innleiðingar breytinga, af mannauðsmálum og uppbyggingu öflugrar liðsheildar. Hún hefur góða þekkingu og reynslu af opinberri stjórnsýslu og rekstri mannvirkja. Síðastliðin ár hefur hún starfað sem rekstrarstjóri mannvirkja í Úlfarsársdal og borið ábyrgð á rekstri miðstöðvar mennta, menningar og íþrótta í Úlfarsárdal og Grafarholti. Áður starfaði Helga sem forstöðumaður þjónustusviðs Öskju þar sem hún var ábyrg fyrir rekstri sviðsins, stefnumótun og áætlanagerð. Þá var hún forstöðumaður bíla- og tækjafjármögnunar hjá Landsbankanum, sérfræðingur á fyrirtækjasviði og forstöðumaður í endurskipulagningu eigna.
Hlakka til samstarfsins
Hlutverk skrifstofustjóra er að sinna verkefnum á sviði íþrótta- og lýðheilsumála og hafa umsjón með rekstri og eftirliti íþróttamannvirkja. Viðkomandi hefur jafnframt umsjón með sértækum verkefnum er varða íþrótta- og lýðheilsumál, bæði undirbúningi og framkvæmd þeirra.