Heitavatnslaust í Vesturbæ sunnan Hringbrautar á morgun
Vegna vinnu í dælustöð hitaveitunnar við Fornhaga verður heitavatnslaust í stórum hluta Vesturbæjar sunnan Hringbrautar á morgun miðvikudaginn 9. október á milli klukkan 8:00 og 16:00. Vesturbæjarlaug verður lokuð farmeftir degi af þeim sökum.
Önnur hús í þessum hluta Vesturbæjar munu finna fyrir litlum þrýstingi á heita vatninu og svæðið má sjá á korti hér fyrir neðan.
Ástæðan er sú að verið er að setja upp hreinsibúnað í dælustöðina til að fanga óhreinindi sem eru náttúrulegur fylgifiskur heita vatnsins frá lághitasvæðum og lesa má nánar um þá vinnu hér. Þessi óhreinindi eru ástæðan fyrir síubúnaði á inntakinu í öllum húsum. Í nokkrum götum í Vesturbænum hafa síurnar ekki undan að fanga óhreinindin og Veitur eru því að setja upp hreinsibúnað á þennan stað til að ná óhreinindum fyrr í kerfinu.
Af þessum sökum er Vesturbæjarlaug lokuð. Vonast er til að hægt verði að opna laugina aftur klukkan 19:00 annað kvöld.
Mikilvægt er að íbúar hafi skrúfað fyrir krana til að koma í veg fyrir slys og tjón þegar vatnið kemur á aftur.
Við bendum húseigendum á að huga að sínum innanhússkerfum. Gott er að hafa gluggana lokaða á þessum tíma til að halda varmanum inni.
Þegar vatni er hleypt aftur á viðamikið lagnakerfi eftir lokun er eðlilegt að lekar geti komið upp. Ef lekar eru utandyra er mikilvægt að tilkynna það í neyðarsíma Veitna, 516 6161, svo hægt sé að bregðast við sem fyrst. Ef leki kemur upp innandyra þarf að hafa samband við pípara.
Allar nánari upplýsingar um gang mála má nálgast á heimasíðu Veitna.