Heimurinn er hér – ný stefna um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf

Skóli og frístund Menning og listir

""

Ný stefna um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf  í skólum og frístundamiðstöðvum borgarinnar var samþykkt í borgarstjórn í dag og stóðu allir flokkar einhuga að henni. 

Meginstoðir nýju stefnunnar eru þrjár: Fjölbreyttir kennslu- og starfshættir, íslenska sem annað mál og virkt tvítyngi og foreldrasamstarf. 

Leiðarljósið er að í fjölmenningarlegu skóla- og frístundastarfi nái öll börn árangri í námi og leik, standi vel að vígi félagslega og fái tækifæri til að vera stolt af uppruna sínum og menningu.

Teymi farkennara
Við innleiðingu stefnunnar á að horfa til raunverulegra þarfa á stuðningi við íslenskunám barna og ungmenna í leikskólum, grunnskólum og frístundastarfi, byggt á málkönnunarprófinu Milli mála. Styðja á betur við móðurmál barna og ungmenna með því að koma á fót teymi farkennara með góða þekkingu á íslensku og helstu tungumálunum sem töluð eru af börnum og ungmennum í Reykjavík og styðja þar með betur við námslega og félagslega stöðu þeirra.

Upplýsingar til foreldra á ensku og pólsku
Í nýju stefnunni er einnig lagt til að upplýsingamiðlun til erlendra foreldra verði efld og að allar upplýsingar skóla- og frístundasviðs til foreldra verði jafnframt þýddar á ensku og pólsku. Einnig að gerður verði samningur við samtökin Móðurmál um móðurmálskennslu tvítyngdra barna í húsnæði SFS og að kennarar á vegum samtakanna miðli þekkingu sinni um mikilvægi móðurmáls til barna, foreldra og starfsfólks í skóla- og frístundastarfi.

Þverpólitísk samstaða 
Oddný Sturludóttir formaður skóla- og frístundaráðs segir að með þessari stefnu sé borgarstjórn að gefa skýr skilaboð um mikilvægi jafnra tækifæra allra barna og ungmenna til að njóta sinna styrkleika.
- Þverpólitísk samstaða um áherslu á móðurmál, virkt tvítyngi og virðingu fyrir menningu allra barna er mjög mikilvæg, sem og sú áhersla sem borgarstjórn leggur á mikilvægi frístundastarfsins, bæði frístundaheimila og félagsmiðstöðva. Við sjáum strax að við náum framförum og árangri á þeim þróunarverkefnum sem eru í gangi, t.d. í Efra-Breiðholti, þar sem starfsfólk tekur höndum saman þvert á skólastig og með hugmyndafræði frístundastarfsins í öndvegi. -

Innleiðing nýju stefnunnar mun taka þrjú ár og á að vera lokið 2017.

Sjá Heimurinn er hér - Stefna um fjölmenningarlegt skóla- og frístundastarf.