Heimildamynd um einelti dreift í alla grunnskóla

Skóli og frístund Mannlíf

""

Jón Gnarr borgarstjóri opnaði heimasíðu verkefnisins einelti.com í Bíó Paradís í dag. Á heimasíðunni getur almenningur nálgast heimildamyndina Allt Um Einelti  sem er 90 mínútna löng fræðslumynd fyrir fullorðna, sem fjallar um einelti meðal grunnskólabarna út frá ýmsum hliðum. Er það von framleiðenda myndarinnar að þetta muni skila sér í því að umræðan um einelti meðal barna muni færast upp á næsta stig.

Myndin var frumsýnd við hátíðlega athöfn í Bíó Paradís nú síðdegis. Á sýninguna var boðið þingmönnum, fulltrúum sveitarfélaga, menntastofnana og félagasamtaka, fólk í menntunar- og uppeldisgeiranum ásamt fjölmörgum öðrum sem hafa látið sig þessi mál varða. Jón Gnarr, borgarstjóri var sérstakur gestur sýningarinnar og opnaði hann fyrir sýningu myndarinnar inni á vefsíðu hennar einelti.com.
 
Allt Um Einelti er 90 mínútna löng fræðslumynd fyrir fullorðna, sem fjallar um einelti meðal grunnskólabarna út frá ýmsum hliðum og fer yfir nokkrar aðferðir til að draga úr því. Í myndinni er rætt við gerendur, þolendur og fagfólk ásamt því að skoðaðar eru ýmsar rannsóknir tengdar efninu. Gerð myndarinnar var meðal annars styrkt af Mannréttindaráði Reykjavíkur, hlaut
Húmanistaviðurkenningu Siðmenntar 2012 og var tilnefnd til Foreldraverðlauna Landssamtaka Foreldra: Heimili og Skóli 2013.
 
Myndinni verður sem áður segir dreift ókeypis til að sem flestir eigi kost á fræðslu um þetta mikilvæga málefni. Í framhaldi verður send tilkynning á alla grunnskóla landsins, ungmennafélög og aðra aðila sem vinna með börnum með hvatningu um að kynna sér efni myndarinnar. Er það von framleiðenda myndarinnar að þetta muni skila sér í því að umræðan um einelti meðal barna muni færast upp á næsta stig.
 
Heimasíða: einelti.com.