Heimaþjónusta og heimahjúkrun á skjáinn

Covid-19 Velferð

""

Skjáheimsóknir í heimaþjónustu og heimahjúkrun eru nýjung í þjónustu á velferðarsviði borgarinnar.

Allt kapp hefur verið lagt á að innleiða og prófa nýjar tæknilausnir í heimaþjónustu, ekki síst í þjónustu við notendur sem margir hverjir eru einangraðir vegna Covid-19 veirunnar.

Með skjáheimsóknum er hægt að veita fólki félagslegan stuðning og nánd án þess að setja fólk í smithættu. Til framtíðar eru skjáheimsóknir hugsaðar sem hrein viðbót við heimaþjónustu og heimahjúkrun til að auka félagsleg samskipti. Hægt er að nota tæknina til dæmis til að minna fólk á að taka lyf,mæta í félagsstarf og aðrar einfaldar leiðbeiningar. Með notkun skjáheimsókna í heimahjúkrun verður hægt að skoða einkenni og mæla með meðferð sem og veita ráðgjöf um forvarnir, heilsu og líðan.

Þverfaglegt teymi með víðtæka reynslu af félagslegri heimaþjónustu og heimahjúkrun hefur unnið að því að innleiða og prófa myndsamtöl með Memaxi hugbúnaði.  Búið er að þróa einfalt viðmót sem hentar öldruðum og langveikum vel. Það nýtist á jafn einfaldan hátt og þegar svarað er í síma því ekki þarf að skrá sig í eða úr forritinu, einungis að svara eða hafna skjátíma. Forritið er allt í senn dagbók, myndsími og gestabók.

Í fyrsta hópnum sem mun nýta þjónustuna verða 80 einstaklingar. Reykjavíkurborg útvegar þeim spjaldtölvur. Búið er að innrétta skjáver fyrir starfsfólk í þessum tilgangi en það getur líka unnið heiman frá sér eða þaðan sem því hentar hverju sinni.

„Í þessu fyrsta þrepi erum við ekki að leggja áherslu á að kenna á tæknina, heldur að finna einfalda lausn sem tryggir góð samskipti og þjónustu. Við viljum umfram allt bjóða örugga og einfalda lausn fyrir notendur til þess að við getum brugðist sem best við aðstæðum,“ segir Berglind Víðisdóttir, hjúkrunarfræðingur og deildarstjóri á velferðarsviði sem stýrir skjáheimsóknum á sviðinu.

Markmiðið með notkun skjáheimsókna er m.a. að anna eftirspurn eftir þjónustu og laga hana að breyttum aðstæðum vegna Covid-19.  Langtímamarkmiðið er að innleiða skjáheimsóknir sem hluta heimaþjónustu og heimahjúkrun og verður þá einnig litið til annarra hugbúnaðarlausna.

Rannsóknir hafa sýnt að skjáheimsóknir veita meiri öryggiskennd en símtöl og gera fólki kleift að búa lengur heima.

„Þetta snýst um að breyta vinnubrögðum og verklagi. Núna störfum við í fordæmalausum aðstæðum sem krefjast nýbreytni,“ segir Berglind. „Núna erum við fyrst og fremst að bregðast við því ástandi sem skapast hefur vegna Covid-19 veirunnar. Með því að nota tæknina drögum við úr smithættu og aukum öryggi bæði þeirra sem njóta þjónustunnar og þeirra sem veita hana. Skjáheimsóknir eru aðeins upphafið að spennandi tækniþróun í þjónustu borgarinnar og þá ekki síst heimaþjónustu. Núna erum við að bregðast við sérstökum aðstæðum en ávinningurinn í tækniþróun á eftir að verða enn víðtækari,“ segir Berglind að lokum.