Heilsuefling aldraðra

""

Reykjavíkurborg vill að íbúar hennar njóti lífsgæða og telur mikilvægt að huga betur að heilsueflingu og lýðheilsu til þess að svo megi verða. Lýðheilsa eldri borgara er þar engin undantekning.

Borgin skipaði í október á síðasta ári starfshóp um heilsueflingu aldraðra.  Verkefnið tengist samstarfi Reykjavíkurborgar um aldursvænar borgir á vegum Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Skýrsla starfshóps um heilsueflingu aldraðra ásamt 26 tillögum um aðgerðir var lögð fyrir borgarráð fimmtudaginn 4. febrúar.  Meðal tillagna hópsins er að kortleggja heilsueflandi aðgerðir og hvar aðstöðu er að finna í Reykjavík, skoða heilsueflingu með tilliti til hverfa, möguleika á samstarfi ólíkra aðila sem veita heilsueflandi þjónustu og gefa út hreyfikort fyrir aldraða.  

Heilsuefling og aukin virkni eldra fólks er mikilvæg til að bæta lífsgæði þess og fyrir samfélagið allt. Hlutverk starfshóps um heilsueflingu aldraðra var að leita leiða til að auka virkni eldra fólks í þeim tilgangi að stuðla að farsælli öldrun.  

Ellert B. Schram, fulltrúi Félags eldri borgara í Reykjavík, var formaður hópsins sem einnig var skipaður fulltrúum frá Reykjavíkurborg, öldungaráði Reykjavíkurborgar og Félagi áhugafólks um íþróttir aldraðra (FÁÍA). 

Heilsuefling aldraðra, skýrsla starfshóps