Hjónin Reinhard Reinhardsson og Karólína Inga Guðlaugsdóttir hafa verið valin Reykvíkingar ársins 2016. Þau fengu þann heiður að opna Elliðaárnar með Degi B. Eggertssyni borgarstjóra í morgun. Karólína gerði sér lítið fyrir og landaði einum stærsta laxi sem veiðst hefur við opnun ánna undanfarin ár.
Hjónin voru tilnefnd fyrir ræktunarstarf sitt í Selásnum sem þau hafa unnið í góðu samstarfi við borgina.
Hjónin keyptu parhús við Viðarás árið 2004. Fljótlega fóru þau að græða upp landið fyrir ofan hús sitt en þar voru aðeins naktir melar. Í fyrstu var ástæðan sú að í miklum rigningum vildi aur skríða til úr holtinu fyrir ofan þau ofan í nærliggjandi garða þar á meðal þeirra. Þau hófu því að planta trjám og binda jarðveginn með gróðri. Ræktunarstarfið vatt upp á sig og nú hafa þau plantað talsverðum skógi frá Viðarásnum niður að Suðurlandsvegi og sjá um að viðhalda talsvert stórri landspildu í fallegri rækt allt í kringum hús sitt. Þetta hafa þau gert í ágætri samvinnu við garðyrkjudeild Reykjavíkurborgar sem hefur oftsinnis gefið þeim plöntur til að gróðursetja. Hjónin hafa þó verið útsjónarsöm og náð sér í afleggjara af trjám sem hefur verið fargað í Sorpu. Þá hafa þau bjargað furutrjám þegar framkvæmt hefur verið í nágrenni við þau, t.a.m. á Hólmsheiði og Norðlingaholti og gróðursett í spildunni. Þarna er nú kominn talsverður skógur með blönduðum trjám sem bæði bætir hljóðvist og myndar skjól í hverfinu.
Hjónin hafa bæði lagt mikið af mörkum við ræktunarstarfið en Reinhard slær alla spilduna og heldur lúpínu í skefjum til að fá góða rækt í skóginn. Þau bæta við trjám á hverju ári og taka sjálfsánar trjáplöntur og færa til svo skógurinn vaxi og dafni. Áður var bara örfoka melur þar sem nú er blómlegt og skjólsælt skóglendi og paradís fyrir fugla eftir aðeins tólf ára ræktunarstarf.
Reinhard starfar sem pípulagningarmaður og segist hafa mjög gott af því að fara út og anda að sér fersku lofti við skógræktarstarfið. „Maður er oft að vinna inn í þröngum rýmum og í ryki þannig að það er ekkert betra en að komast út og gera eitthvað.“
Hjónin nota allt sem til fellur í skóginum og lífrænan úrgang frá heimilinu til að búa til moltu fyrir skógræktina. „Það kemur allt lífrænt að notum til að búa til jarðveg. Við erum með spartunnu frá Reykjavíkurborg og erum dugleg að flokka og nota grenndarstöðvarnar þannig að litla tunnan okkar er oftast ekki nema rétt hálf þegar komið er að hirða,“ segir Karólína.
Á vorin sópa þau sandinum sem borinn er á botnlangann til hálkuvarna og bera í göngustíg sem liggur í skóginum. Það hefur gert það að verkum að nú sópa flestir nágrannarnir líka áður en verktakar á vegum borgarinnar koma til að þrífa.
Hjónin veiddu vel í Elliðaánum í morgun ásamt Ásgeiri Heiðari leiðsögumanni sem leiðbeindi þeim við veiðarnar. Þau fengu sitt hvorn laxinn og voru það hvoru tveggja maríulaxar. Lax Karólínu var sérdeilis glæsilegur 87 sm hængur sem vó um 14 pund. Dóttir þeirra Elísabet fékk einnig að renna og fékk pattaralegan maríulax. Öll voru þau kampakát með veiðina enda í fyrsta sinn að veiða lax.
Borgarstjóri renndi síðan fyrir lax í ánum og fékk tvo nýgengna smálaxa. Átta laxar voru komnir á land fyrir kl. 10. Að sögn Árna Friðleifssonar, formanns Stangaveiðifélags Reykjavíkur sem hefur haft árnar á leigu frá Reykjavíkurborg frá 1939 fer laxveiðin í Elliðaánum því einkar vel af stað þetta árið.