Haustinu fagnað með fallegum skreytingum

Umhverfi

""

Skrautkálið sem Auður Jónsdóttir og starfsfólk í Ræktunarstöð Reykjavíkurborgar hafa ræktað er komið í steinsteypt ker sem er að finna víða um borgina. Sumarblómin glöddu fólk svo sannarlega í sumar og það munu haustskreytingarnar líka gera. Auður hvetur fólk til að taka á móti hverri árstíð með gleði.

Skrautkálið er mikið fyrir augað og kjarni þess minnir helst á rós og fer það vel með öðrum plöntum í kerjunum. „Eins og nafnið gefur til kynna er þetta káltegund en hún er ekki beint til að borða. Blöðin eru þykk og frekar seig. Skrautkálið þolir frost í svolítinn tíma þannig að það stendur frameftir hausti og stundum alveg fram að jólum,“ segir Auður en í kerjunum sem starfsfólk garðyrkjudeildar Reykjavíkurborgar er búið að planta í eru líka til dæmis ericur og callunur. Búið er að setja niður í flest kerin sem eru hvað mest áberandi í miðborginni en eitthvað á enn eftir að bætast við úti í hverfunum.

Náttúran um allt í borginni

Auði finnst gaman að horfa á haustlitina í trjánum og berin sem skreyta þau og næra líka fuglana. „Náttúran er út um allt í borginni og það er gaman að fylgjast með því hvað er í gangi á hverjum árstíma. Þegar líður fram á vetur og trén missa laufin, þá ber mikið á sígræna gróðrinum. Hvítur snjór og sígrænn gróður fer vel saman,“ segir hún og bendir líka á að eftir að laufin falla sjáist stofninn á trjánum betur og börkurinn sjálfur sem ólíkur milli trjátegunda.

„Vaxtarlagið sést betur á nöktum greinum trjánna eftir lauffall á haustin. Það er margt sem hægt er að gefa gaum,“ segir Auður.

Mismunandi árstíðir í kerjunum

Steyptu kerin sem er að finna út um alla borg skipta um svip í takt við árstíðirnar.

„Áður voru í þessum kerjum alltaf bara sumarblóm, nema í desember voru þau skreytt greni- eða furugreinum, sem var flott. En síðustu ár höfum við farið í allar fjórar árstíðirnar í kerjunum.  Á vorin erum við meðal annars með páskaliljur, demantsliljur og stjúpur sem eru vorblómin okkar. Síðan á sumrin koma þessi fallegu sumarblóm í þau. Og svo tökum við vel á móti haustinu og þegar það er búið þá setjum við eitthvað jólalegt í þau,“ segir Auður og bætir við skemmtilegum skilaboðum að lokum að lokum: „Tökum fagnandi á móti hverri árstíð, hver árstíð hefur sinn sjarma.“