Hátíðleg stund á Austurvelli þegar jólaljósin voru tendruð á Oslóartrénu

Oslóartréð er glæsilegt á ljósumprýddum Austurvelli
Oslóartréð á Austurvelli

Jólaljósin á Oslóartrénu voru tendruð við hátíðlega athöfn á Austurvelli í gær á fyrsta sunnudegi í aðventu. Tendrun jólaljósanna á Oslóartrénu markar upphaf jólahátíðarinnar í hugum og hjörtum borgarbúa. 

Oslóartréð er gjöf frá Oslóarborg og var fellt í Heiðmörk í síðasta mánuði. Tréð er hið glæsilegasta liðlega 12 metra hátt sitkagreni, skreytt með 20.000 ljósum, 120 gylltum jólakúlum og á toppnum er falleg jólastjarnan. 

Fjöldi fólks lagði leið sína á Austurvöll til að fylgjast með tendrun ljósanna á Oslóartrénu
Vel búið fólk lét ekki frost og kulda aftra sér og mættu á Austurvöll til að fylgjast með dagskránni.

Þrátt fyrir frost og kulda lagði fjöldi fólks leið sína á Austurvöll til að fylgjast með dagskránni. Lúðrasveit Reykjavíkur spilaði jólalög, Tufti og tröllabörnin mættu og glöddu viðstadda og Una Torfadóttir og Friðrik Dór ásamt hljómsveit fluttu falleg jólalög. 

Una Torfadóttir og Friðrik Dór ásamt hljómsveit fluttu falleg jólalög
Una Torfa og Friðrik Dór fluttu falleg jólalög.

Mehmet Khan Inan borgarfulltrúi flutti kveðju frá Oslóarborg og afhenti Einari Þorsteinssyni  norskar barnabækur sem hafa verið þýddar á íslensku, en bækurnar fara á öll skólabókasöfn í grunnskólum Reykjavíkur. 

Einar Þorsteinsson borgarstjóri og norsk-íslenska stúlkan Herborg Anda aðstoðaði við tendrun ljósanna.
Einar Þorsteinsson borgarstjóri og norsk-íslenska stúlkan Herborg Anda aðstoðaði við tendrun ljósanna.

Borgarstjóri, flutti hátíðarræðu og að því loknu aðstoðaði norsk-íslenska stúlkan Herborg Anda sem er 11 ára gömul, borgarstjóra við að tendra ljósin á trénu. 

Jólasveinarnir stálust í bæinn til að skemmt börnunum á Austurvelli
Jólasveinarnir stálust í bæinn til að skemmta krökkunum á Austurvelli

Í lokin komu jólasveinarnir Giljagaur og Askasleikir en þeir stálust í bæinn í dulbúningi til að syngja og skemmta kátum krökkum. 

Líflegt á jólamarkaðnum við Austurvöll

Á jólamarkaðnum við Austurvöll sem opnaði á laugardaginn var nóg að gera. Þar er á boðstólum  góðgæti og jólavarningur allar helgar fram að jólum.

Það verður boðið upp á fjölbreytta dagskrá í jólaborginni.