Háskólanemum boðið að þróa grænar lóðir

Skipulagsmál Hverfisskipulag

""

Reykjavíkurborg tekur þátt í nýrri alþjóðlegri samkeppni á vegum C40 Reinventing Cities sem býður nú háskólanemum að þróa svæði eða stórar lóðir í borgum sem taka þátt í samstarfi C40.  

Samkeppnin ber nafnið Students Reinventing Cities og er háskólum eða teymum háskólanema boðið að senda inn tillögur í samkeppnina. Reykjavíkurborg hefur lagt fram afmarkað svæði í efra Breiðholti í samkeppnina. Háskólateymi sem ákveða að taka þátt í samkeppninni geta valið úr svæðum víðs vegar um heiminn, en um 18 borgir hafa lagt til svæði í samkeppnina ásamt Reykjavíkurborg.  

C40 Reinventing Cities eru samtök borga um allan heim sem vinna saman að því að gera borgir sjálfbærar og grænar í baráttunni gegn loftslagsbreytingum og þeirri vá sem af þeim stafar. Reykjavík er aðili að samtökunum og eru nú þegar fjögur þróunarverkefni í gangi á vegum C-40 í borginni. Verið er að þróa lóðir í samkeppni á vegum C-40 í Gufunesi og á Sævarhöfða. Verkefnið á Sævarhöfða snýst m.a. um að finna nýtt og grænna hlutverk fyrir 40 metra háa turna sem þar eru á fyrrum athafnasvæði Björgunar. Þá er verið að þróa lóð á Ártúnshöfða auk lóðar við Lágmúla, þar sem verður byggt umhverfisvænt hús úr timbri og jarðhiti undir lóðinni nýttur til sjálfbærni. Verkefnin þurfa að stuðla að sjálfbærni og grænum lausnum.

Svæðið sem Reykjavíkurborg býður til háskóla samkeppninnar er Austurberg og Gerðuberg í Efra-Breiðholti.

Students Reinventing Cities snýst um að háskólanemum er boðið að mynda þverfagleg teymi sem taka að sér að þróa lóðir eða svæði í borgum. Verkefnið er kolefnisjafna hverfin, gera þau grænni og betur í stakk búin til að takast á við loftslagsbreytingar. Tillögurnar þurfa að miða að því að styðja við blómlegt og sjálfbært mannlíf í borgunum. Svæðin sem um ræðir geta verið hverfishlutar eða götur sem borgaryfirvöld vilja endurnýja og glæða lífi.

Kröfur til teyma og efni tillagna

Lagt er til í forsögn að samkeppninni að teymi háskóla eða háskólanema séu þverfagleg og skipuð nemendum úr ýmsum fögum, t.d. úr arkitektúr, borgarhönnun, umhverfisfræði, viðskiptafræði, fasteignaþróun, verkfræði og tæknifræði. Teymin geta verið samsett af háskólanemum úr einum háskóla en einnig úr fleiri sem vinna þá saman. 

Teymin eiga að skila inn heilsteyptum tillögum með nákvæmri hönnun ásamt hugmyndum að notkun með mati á umhverfisáhrifum. Huga þarf að því að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda á tillögusvæðunum og að tækifærum til að auka samfélagslega þátttöku á svæðunum. Þá þurfa verkefnin að vera fjárhagslega möguleg.

Nánari upplýsingar um C40 Students Reinventing Cities

Fréttatilkynning C40 Reinventing Cities á ensku 

Kynning á C40 Students Reinventing Cities

Kynningarmyndband Reinventing Cities